Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

699. mál
[18:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og lögum um loftslagsmál. Flutningsmenn frumvarpsins auk mín eru Bjarni Jónsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Njáll Trausti Friðbertsson og Orri Páll Jóhannsson.

Frumvarpið er nátengt lögum nr. 12/2021, þar sem tilskipun Evrópusambandsins um geymslu koldíoxíðs í jörðu var innleidd. Um málið var þar af leiðandi fjallað á síðasta löggjafarþingi og er markmið þessa frumvarps eingöngu að bregðast við niðurstöðu þess samtals sem stjórnvöld hafa átt við ESA í kjölfarið og snýr að því að gætt sé að samræmi milli texta laganna og texta tilskipunarinnar.

Í núgildandi lögum var leitast við að koma til móts við Carbfix-aðferðina sem felur í sér steinrenningu koldíoxíðs í jarðlögum neðan jarðar í stað geymslu í holrýmum neðan jarðar líkt og hefðbundið er. Við innleiðingu tilskipunarinnar hér á landi var einnig horft til þess sem sameiginlegt var báðum aðferðunum og í stað orðsins „geymslu“ notast við orðið „niðurdælingu“. Þannig má í núgildandi lögum t.d. finna orðin „niðurdælingarleyfi“ í stað „geymsluleyfis“, „niðurdælingarsvæði“ í stað „geymslusvæðis“ o.s.frv.

Frá samþykkt laganna á síðasta löggjafarþingi hefur verið unnið að reglugerð um frekari útfærslu á framkvæmd laganna. Í þeirri vinnu hefur nú komið í ljós að tilskipunin veitir ekki svigrúm til að hverfa frá orðinu „geymsla“ þar sem slíkt geti leitt til misskilnings varðandi ýmsar kröfur sem eru settar fram í tilskipuninni. Þá hefur jafnframt komið fram að ESB telji tilskipunina tæknilega hlutlausa. Frumvarp þetta felur þar af leiðandi fyrst og fremst í sér að í stað orðsins „niðurdæling“ verði notast við orðið „geymsla“. Sömuleiðis eru lagðar til nokkrar breytingar því nátengdu.

Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps og legg til að að lokinni þessari umræðu gangi það beint til 2. umr.

Þess skal getið að frumvarpið er unnið í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem hefur verið í samskiptum við ESA og annað slíkt. Eins og kom fram í máli mínu þá er efnislega búið að fjalla um þetta frumvarp og fá þá afgreiðslu, enda erum við bara breyta hér orðalagi vegna reglugerðarinnar sem Carbfix-aðferð þarf að fá til þess að geta haldið sínum störfum áfram, þ.e. það er verið að laga orðalag svo að hún geti gengið upp.