Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

699. mál
[18:56]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir framsöguna á þessu nefndarfrumvarpi. Ég skil vel tilganginn með því. Það er að sjálfsögðu þannig að það eru til mismunandi aðferðir við að binda kolefni og það er að sjálfsögðu tvennt ólíkt hvort verið er að dæla niður kolefni og einhvern veginn festa það í jörðinni eða það sem verið er að gera í Carbfix þar sem verið er að umbreyta því yfir í stein. Nú er það hins vegar þannig í þessari tækni að það er mikið verið að skoða nýjar aðferðir og fleiri leiðir til að binda og þannig geyma kolvetni. Það var síðast í fréttum núna í dag verið að fjalla um erlent fyrirtæki sem er að koma hingað til lands og ætlar sér að fara í að rækta fljótandi þörungaskóga sem eiga að binda koldíoxíð þá tæknilega í sjónum, í þörungum í sjónum. Spurning mín er sú hvort að í nefndinni og í þeirri vinnu sem var farið í innan ráðuneytisins við að búa til þessar breytingar hafi menn hugsað nógu vítt, ekki bara um Carbfix heldur um aðrar aðferðir líka og hvernig hægt væri að tryggja það að einmitt svona kolefnisbindandi tækni og nýsköpun komi hingað til lands og að við séum ekki að binda okkur bara við eina aðferð heldur margar.