Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

699. mál
[19:03]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni og formanni umhverfis- og samgöngunefndar fyrir framsöguna í þessu máli. Það er svo sannarlega þannig að við erum öll að reyna að finna lausnir á því hvernig við eigum við þá miklu loftslagsvá sem við búum við. Ein af þeim aðferðum sem verið er að skoða í því sambandi er einmitt hvernig hægt er að geyma eða umbreyta koltvísýringi, koldíoxíði, það var alltaf kallað koltvísýringur þegar ég lærði efnafræði. Hvernig er hægt að geyma koldíoxíð eða með öðrum orðum: Hvernig getum við stoppað það að vera að blása þetta allt út í lofthjúpinn og þar með hækka hitastigið á jörðinni? Það er svo sannarlega þannig að Ísland hefur sýnt það að við getum verið í fararbroddi þegar kemur að því að rannsaka og prófa nýja tækni þessu tengdu og ég held ég tali varla við neinn á sviði nýsköpunar sem er að vinna eitthvað á erlendri grund sem ekki hefur talað um Carbfix-verkefnið og ég held að það komi ekki hingað til lands neinir hópar sem eru að skoða eitthvað tengt loftslagsmálum sem ekki fara og skoða Carbfix-verkefnið, enda er það að gera frábæra hluti. Ég hef ekkert á móti því að við séum að laga núverandi lög um hollustuhætti og mengunarvarnir þannig að þau nái líka yfir þá aðferð sem Carbfix er að nota vegna þess að hún er svo sannarlega mjög sérstök og aðferðafræðin skemmtileg, hugsunin á bak við hana mjög öðruvísi heldur en einmitt hefur verið í annarri tækni. En ég vil líka að við pössum okkur á því að við séum ekki að loka okkur inni í því að fókusera bara á einhverja eina ákveðna tækni vegna þess að það verður þannig á næstu árum og áratugum að við munum þurfa að prófa margs konar tækni þegar kemur að því að geyma eða umbreyta eða nýta á einhvern máta koldíoxíð.

Eins og ég nefndi hér í andsvari áðan að þá kom í fréttum í dag að hér á landi í sumar mun hefja starfsemi amerískt fyrirtæki sem heitir Running Tide en þeir eru að rækta fljótandi þörungaskóga. Þetta finnst mér mjög athyglisverð hugsun, að skoða það hvort hægt sé að nýta lífræna, eigum við að segja tækni, nota lífrænan þörungagróður til þess að binda og geyma koldíoxíð og jafnvel umbreyta því vegna þess að eitt af því sem gerist þegar líffræðilegu aðferðirnar eru notaðar er einmitt það að lífverurnar taka koldíoxíðið og breyta því annars vegar í súrefni og hins vegar í kol — ég man ekki hvað það heitir á íslensku, orðið einum of langt síðan ég lærði efnafræði. Þetta er athyglisvert, þarna er að koma ný tækni hingað til lands og það tel ég að sé einmitt eitt af því sem við þurfum að vera rosalega opin fyrir, að fá svona tækni til landsins til að prófa, vera land sem er tilbúið að taka á móti nýrri tækni og vinna með henni. Þegar við gerum slíkt þá þurfum við að gera það á þann máta að lagaumhverfið, og þá kem ég kannski að hlutverki okkar hér inni, við þurfum að vera tilbúin að búa til lagaumhverfi sem gerir það að verkum að nýsköpun á þessu sviði sæki hingað. Af hverju er þetta ákveðna fyrirtæki að koma hingað? Jú, það var tilkynnt fyrir nokkrum vikum síðan að fjárfestirinn Davíð Helgason og fleiri væru að setja hér á fót fyrirtæki sem þeir kalla Transition Labs sem á einmitt að vera leiðandi í því að fá þá frumkvöðla sem eru að gera nýja hluti á sviði loftslagstækni til þess að nota Ísland sem þann stað þar sem hægt er að gera þessa hluti. Ef við ætlum að geta dregið svona fyrirtæki að okkur þá þurfum við að vera dugleg í því, sérstaklega hér inni, að passa að okkar regluverk þróist með nýsköpuninni. Þess vegna var ég að spyrja hv. þm. Vilhjálm Árnason hér áðan hvort tækifæri væri til að horfa aðeins víðar á þetta og gera þetta aðeins minna bundið tækninni og þar með opna dyr fyrir fyrirtæki sem eru að hugsa öðruvísi heldur en Carbfix og eru að hugsa öðruvísi heldur en þau fyrirtæki sem Evrópusambandið bjó til sína upprunalegu reglur fyrir, hvernig við getum opnað þessar dyr og hreinlega laðað að okkur þá nýsköpun sem verið er að leggja stórfé í. Það er nefnilega þannig að það er verið að setja tugi ef ekki hundruð milljarða dollara í nýsköpun á þessu sviði og við þurfum ekki að fá nema 1% af því til Íslands og þá er það bara ansi góð viðbót inn í okkar hagkerfi. Þarna erum við að opna upp tækifæri. Við þurfum, sérstaklega vil ég meina þeir sem sitja í umhverfis- og samgöngunefnd af því að þetta tengist náttúrlega umhverfismálunum, virkilega að vera með augun opin, ekki bara fyrir Carbfix-verkefninu heldur fyrir öðrum verkefnum. Ég hvet hv. nefnd til þess að kynna sér þessi nýju fyrirtæki og þessa nýju aðila sem eru að koma með fjármagn og annað hingað inn til að átta sig á því hvert við þurfum að vera að horfa á næstu árum og áratugum.

Þetta tengist ekki bara því sem gerist í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég sit í atvinnuveganefnd og nýsköpun fellur náttúrlega þar undir. Við þurfum að vinna vel saman. Við þurfum að tala saman, þessar tvær nefndir, um það hvernig við fáum nýsköpunarfyrirtæki á sviði umhverfismála til að nota Ísland sem alþjóðlega miðstöð og miðpunkt í þessum málum. Það eru ekki bara einhverjir stórir draumar. Þetta eru hlutir sem við raunverulega getum gert ef við vinnum saman að þessum málum og ég hvet hv. kollega mína í stjórn og stjórnarandstöðu til þess að horfa þarna á tækifæri saman vegna þess að ef við finnum upp tækni og gerum okkar tæknileiðandi, gerum frábæra hluti á þessu sviði, þá þurfum við ekkert að vera að rífast um það hvaða prósentu við ætlum að ná í niðurskurði á útblæstri eftir einhver ár, 18 ár eða hvað það er sem við erum búin að setja okkur, vegna þess að þá náum við því miklu fyrr með hjálp tækninnar. En til þess þurfum við að vera opin og vera tilbúin til þess að vinna saman hér inni að þessum málum.

Við þurfum kannski líka að hugsa út í það hvort við þurfum að taka upp aðferð sem þingið í Eistlandi tileinkaði sér fyrir nokkrum árum síðan en það er að hugsa út lög á sviði nýsköpunar þar sem hægt er að leyfa og prófa ákveðna hluti með tímatakmörkunum. Það er ekki verið að leyfa öllum að gera það, það þarf ákveðinn ramma utan um það. Þeir kalla þetta, með leyfi forseta, „beta laws“, og stela þar úr hugmyndafræði tæknigeirans þar sem maður sendir út svokallaða beta-útgáfu til þess að prófa hluti. Eins og eistneski forsetinn orðaði þetta þegar hún var að kynna þetta á ráðstefnu sem ég var á: Við erum ekkert endilega viss um að þetta verði endanlegu lögin en við erum alltaf tilbúin til að hraða þeim breytingum í gegn í að prófa okkur áfram. Ég held að það sé hugmyndafræði sem við gætum lært af hér inni, sér í lagi þegar kemur að því að styðja nýsköpun á sviði umhverfismála. Segjum sem svo að þetta ákveðna frumvarp fari núna í gegn á næstu vikum og verði að lögum en svo banki einhver upp á hér í sumar og segi: Heyrðu, ég er með þessa aðferð. Þá séum við — stjórnkerfið, ráðuneytin og nefndirnar — tilbúin að horfa á það og tilbúin segja: Já, ég veit, við vorum að samþykkja þetta fyrir bara nokkrum vikum síðan, en við erum alveg tilbúin til að bæta inn „sjávar“ sem málsgrein. Stundum erum við nefnilega þannig að við segjum: Við erum búin með þetta verkefni. En þegar kemur að nýsköpun og að því að þróa nýjar aðferðir þá erum við aldrei búin. Ég get lofað hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni því að við þurfum örugglega að breyta þessum reglum, kannski á hverju ári héðan í frá. En það er allt í lagi. Það er allt í lagi að breyta þessu. En við þurfum líka að hugsa þegar við erum að setja lögin hvort við eigum kannski að opna ákveðna hluti aðeins meira þannig að við þurfum ekki alltaf að vera að breyta lögunum þegar nýjar aðferðir eða nýjar leiðir koma fram.

Ég fagna því að hér sé verið að tryggja það að Carbfix-aðferðin falli undir núverandi löggjöf og ég vona að það sé skoðað og unnið vel og hratt en líka að það sé hugsað aðeins um það hvort við getum bætt einhverju inn þannig að við séum jafnvel opnari fyrir nýjungum þegar þær koma.