Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

699. mál
[19:19]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég skil vel að það þurfi að vinna þetta hratt og vel. Það er von mín að nefndin hugsi ekki þannig að þetta sé síðasta breytingin sem gerð verði eða einhver endastöð fyrir lög sem tengjast því að binda koldíoxíð hvar sem það er. Mig langaði að koma því á framfæri gagnvart nefndinni að muna það endilega þegar kemur að þessum málum þar sem við erum að prófa tækni, að við erum mjög framarlega þegar kemur að því að prófa nýja tækni, og þá þurfum við bara að vera tilbúin að hoppa í hvora áttina sem er eða báðar áttir eftir því hvernig tæknin og annað þróast.

Hv. þingmaður er formaður umhverfis- og samgöngunefndar og ég varaformaður í atvinnuveganefnd og ég veit að ég get alveg rætt við hv. formann atvinnuveganefndar. Þess vegna legg ég til að þessar tvær nefndir setjist niður, hvort heldur formlega eða óformlega, hvort sem það er í haust eða í sumar, og ræði hvernig við getum unnið saman við að keyra áfram nýsköpun á sviði umhverfismála. Þar eru stór tækifæri sem geta virkilega ekki bara hjálpað umhverfi okkar og öðru hér heima heldur líka dregið fullt af fjármagni hingað til lands, fullt af nýsköpun. Það er það sem við þurfum.