Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

699. mál
[19:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna enn og aftur og tek áskoruninni um samstarf nefndanna. Við í umhverfis- og samgöngunefnd erum til í að vinna hratt og vel með nýsköpuninni og bregðast við. Það er alveg rétt að nýsköpun hleypur svo hratt og tekur alltaf einhverja nýja vinkla þannig að ef maður vill halda bálinu heitu þarf maður að vera á tánum. Ég fagna því að vel sé tekið í að við séum að koma með þetta mál þá óvenjulegu leið að nefndin flytji málið til þess að greiða svolítið fyrir og vera ekki að að tefja öflugt verkefni. Við munum líka taka þau mál hratt og örugglega sem fara hina venjulegu leið. Þegar nýsköpunaraðilar leita beint til stjórnvalda, ráðuneytanna eða stofnana eftir atvikum, þá erum við viljug að taka þau mál rétta leið inn í nefndina og gefa þeim góða meðferð og hafa þau ofarlega í forgangsröðun nefndarinnar.

Ég vil líka taka undir þau sjónarmið að í loftslagsmálunum eru gríðarleg tækifæri til að byggja upp velsæld á Íslandi ef við fáum að koma með nýsköpun og flytja út okkar þekkingu og reynslu og annað slíkt. En við getum líka lagt svo mikið til loftslagsmálanna, kennt heiminum. Af því að við erum smá þá ganga hlutirnir oft mikið hraðar hér. Mörg önnur mál tengjast þessu í báðum þeim hv. þingnefndum sem hv. þingmaður nefndi. Við erum að fjalla þar um rammaáætlun og stækkanir virkjana. Þeir sem eru í nýsköpun þurfa að fá allt þetta til að vinna til að fá að vera með puttana í framkvæmdum, til þess að fá nýsköpunina fram og þar er ég er boðinn og búinn til að leggja mitt lóð á vogarskálarnar svo það nái fram að ganga.