Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

699. mál
[19:25]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég kem upp til þess að ræða aðeins um vinnulag, því að hér er vissulega um gott mál að ræða með góðum markmiðum. Ég er hjartanlega sammála því sem fram hefur komið hér í ræðum, annars vegar hjá formanni umhverfis- og samgöngunefndar og hins vegar hjá hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni, að það eigi að vera keppikefli og markmið okkar að laða nýsköpun hingað til landsins. Í því skyni á löggjafinn að gera það sem í hans valdi er.

En af því að hv. þm. Vilhjálmur Árnason lýsti því að kappið hefði verið svo mikið að menn hefðu farið fram úr tilskipun þá er það einmitt þannig sem slysin verða. Þegar frumvörp fá ekki tímann með sér, fá ekki eðlilegan meðgöngutíma, þegar mál eru unnin á hlaupum, þá bjargar það þeim ekki að þau séu í grunninn góð eða markmiðin séu góð því að þannig verða slysin.

Ég geri aðeins athugasemdir við það tungutak hér að meiri hlutinn, eins og ég skil það, sem er á þessu máli sé liðlegur og þeir sem ekki eru með séu það þá ekki. Hérna er verið að leggja fram breytingar sem vissulega eru orðalagsbreytingar. En þannig eru jú allar lagabreytingar, breytingar á orðalagi, og orðum fylgja efnisbreytingar.

Ég styð þetta mál heils hugar, markmiðið þar að baki, annars vegar hvað varðar nýsköpunina, hins vegar hvað varðar markmið í loftslags- og umhverfismálum. En hér er verið að leggja fram á óskaplega miklum hraða breytingar sem eru vissulega tæknilegs eðlis. En tæknilegar breytingar hafa líka efnisáhrif í för með sér. Þessar breytingar á orðum sem komu fram mjög skyndilega leiða til þess að hér er í reynd verið að leggja fram bandorm, því að þá þarf ekki bara að breyta þeim lögum sem eru til umfjöllunar og umræðu heldur líka lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og lögum um loftslagsmál. Við verðum bara að trúa því og treysta og vona að það að kippa út orðum í fullhugsaðri í lagasetningu og skipta þeim út fyrir önnur, sé jafn hættulítið og meiri hlutinn vill vera láta. Ég hefði einmitt í ljósi hagsmuna og í ljósi þess tíma sem við höfum, talið fara vel á því að vinna þetta mál með öðrum hætti þannig að við værum vissulega að vinna það hratt en jafnframt vel. Og það vantar upp á það.