Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

um fundarstjórn.

[13:37]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég vil bara taka undir það sem kollegar mínir hafa sagt hér. Við höfum svo sem verið að röfla yfir þessu meira og minna í allan vetur. Alþingi hefur gríðarlega mikilvægt eftirlitshlutverk með framkvæmdarvaldinu. Til þess að sinna því eftirlitshlutverki hefur þingið ákveðnar heimildir til að krefjast upplýsinga, krefjast gagna, krefjast svara frá ráðherrum. Þar á meðal eru þessar skriflegu fyrirspurnir sem, eins og kom fram í máli hv. þm. Björns Leví Gunnarssonar hér áðan, er ekki verið að svara innan þess tímaramma sem lögin setja og stundum fást jafnvel engar skýringar á þeim töfum. Þá ber talsvert mikið á því að í óundirbúnum fyrirspurnum, sem við getum lagt fram hér á þingi og fengið munnlegt svar við frá hæstv. ráðherrum, er spurningum iðulega ekki svarað. Nú er ég persónulega að bíða eftir svari við fjórum spurningum og vona að ég fái svör við þeim áður en þinginu verður lokið. Tilgangurinn með þessum fyrirspurnum er ekki síst að vita hvort bregðast þurfi við með einhvers konar þingmálum. Miðað við þær tölur sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi hér áðan þá er ég ekki vongóð um að fá svör áður en þingi verður hreinlega slitið í sumar.