Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

um fundarstjórn.

[13:47]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur varðandi það að það er í ýmsu fleira sem stjórnvöld eru ekki að veita þinginu þau gögn sem það á rétt á, ekki bara tilviljanakennt og eftir hentisemi stjórnvalda heldur lögum samkvæmt, og það eru þessi gögn vegna afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir nefndi hér líka. Það er akkúrat ekki tilviljanakennt hvaða gögn það eru og hvaða upplýsingar það eru sem stjórnvöld eru ekki að veita Alþingi. Það er engin tilviljun að Útlendingastofnun neitar að afhenda Alþingi gögn svo að þingið geti afgreitt þessar umsóknir. Það er vegna þess að Útlendingastofnun er ósátt við það hvaða einstaklingum þingið er að veita ríkisborgararétt. Það er ekkert flóknara en það. Það er því engin tilviljun. Þetta er ástand sem er ekki líðandi. Það er Alþingi sem segir framkvæmdarvaldinu fyrir verkum en ekki öfugt.