Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands.

514. mál
[16:26]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands. Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk skýrsluna til umfjöllunar og kallaði til sín gesti sem gáfu gleggri mynd af umfjöllunarefninu. Saga Landhelgisgæslu Íslands er nokkuð löng. Hún hefst í kringum 1920 þegar gæsla hefst í landhelginni, bæði við björgun og til að gæta hagsmuna þjóðarinnar á fiskimiðum við landið. Þessi saga spannar því rúm 100 ár. Mikilvægi Landhelgisgæslunnar er gríðarlegt, ekki bara fyrir öryggi sjófarenda og varnir fyrir landhelgina heldur hefur Landhelgisgæslan einnig gætt öryggis landsmanna í gegnum tíðina, bæði á sjó og í lofti. Banaslysum á sjó hefur fækkað mikið á liðnum áratugum, frá því að vera rúmlega 200 manns á áttunda áratugnum og niður í þrjá á tímabilinu 2014–2018. Úr mörgu hefur verið bætt hvað varðar öryggismál sjómanna og er þar öflugu forvarnastarfi fyrir að þakka og á Landhelgisgæslan þar hlut að máli. Eðlilega hefur umfang og verkefni Gæslunnar breyst í gegnum árin og hefur hún tekið að sér margvísleg verkefni. Vægi og umsvif varnarmála hafa aukist í starfsemi Landhelgisgæslunnar undanfarin ár og ekki er útlit fyrir annað en að sú þróun haldi áfram, sérstaklega í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu.

Lykileining við eftirlit og löggæslu Landhelgisgæslunnar í hafinu við Ísland er TF-SIF. Það er flugvél sem er sérhönnuð fyrir verkefni á Norður-Atlantshafi. Hún er búin ýmsum hátæknibúnaði eins og fullkominni ratsjá og hitamyndavél og hún er einnig þannig búin að hægt er að varpa úr henni björgunarbátum. Vélin skiptir mjög miklu máli fyrir lögsögu Íslands þar sem hún getur sinnt leit og björgun á svæðum þar sem erfitt er fyrir önnur tæki að taka þátt í björgun. TF-SIF er stóran hluta ársins í útleigu til verkefna á vegum Frontex. Á árunum 2018–2020 má sjá að aðeins á bilinu 18–36% flugstunda hennar var varið við eftirlitsstörf við Íslandsstrendur. Útleiga TF-SIF í Frontex-verkefnunum hefur að jafnaði numið allt frá þremur mánuðum til sex mánaða á ári en það hefur stundum verið þannig að hún er lengur úti og hefur jafnvel verið meira en helming árs erlendis. Mér skilst að vélin hafi einungis farið í tvær ferðir hér á landi á þessu ári. Tíminn sem vélin er hérlendis fer að miklu leyti í uppsafnað viðhald, sem oft getur tekið töluverðan tíma, sem gæti annars verið sinnt með reglulegu viðhaldi hérlendis og án þess að vélin þyrfti að stoppa í lengri tíma. Á meðan flugvélin er í Frontex-eftirlitinu í Miðjarðarhafi er stór hluti lögsögu Íslands eftirlitslaus þar sem skip og þyrlur geta ekki sinnt jafn stóru svæði og TF-SIF getur á skömmum tíma. Af því leiðir að ekki er hægt að fylgjast jafn vel með umferð um landhelgina líkt og dæmin hafa sýnt í skútumálunum. TF-SIF er lykillinn að því að veita skjóta aðstoð úr lofti þegar slys verða á sjó, getur varpað björgunarbátum eða öðrum búnaði úr lofti til þeirra sem þurfa aðstoð. Hún er búin fullkomnum búnaði til að meta og kortleggja mengun í sjó og lofti og eldsumbrot og breytingar á yfirborði jarðar með radarbúnaði ásamt hitamyndavélum. Þetta sýndi sig og sannaði í eldsumbrotunum árið 2010 þar sem búnaður vélarinnar náði myndum af gígum í gegnum ský og gosstróka. Aðalskylda okkar ætti að vera landhelgisgæsla og aukaskyldan Frontex. Ef til vill mætti velta því fyrir sér hvort betra væri fyrir okkur að fjárfesta í minni eftirlitsflugvél til að reka í Frontex og afla rekstrartekna og reka TF-SIF á Íslandi fyrir hluta þeirra tekna sem aflað er í Frontex.

Eftir sem áður er það skýrt að Landhelgisgæslan skiptir okkur mjög miklu máli og stofnunin sem slík á hrós skilið fyrir alla þá vinnu sem hún leggur á sig við að halda okkur öruggum og taka þátt í björgunarstörfum.