Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[17:17]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Frú forseti. Frumvarpið sem hér um ræðir er að einhverju leyti umfangsmikið en það er um breytingu á almennum hegningarlögum sem ég hef tekið eftir að þingið er frekar tregt, afsakið orðalagið, við að gera breytingar á. Ég tek því þessu mjög fagnandi, sérstaklega hvað varðar hatursorðræðuna af því að eins og mörg vita þá er það mitt hjartans mál að þetta lagaákvæði verði bætt. Hins vegar verð ég að fá að koma inn á það að mér finnst þetta bara einfaldlega ekki ganga nógu langt. Refsiramminn er vissulega hækkaðar í 1. gr., þetta verður refsiþyngingarástæða, mögulega, fyrst þetta hefur áhrif á refsihæðina sem er að vísu mjög jákvætt.

Seinast þegar ég kom hér inn, það var í mars, þá sendi ég inn fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um beitingu 233 gr. a almennra hegningarlaga, sem er hatursorðræðuákvæðið. Svarið við fyrirspurninni var áhugavert. Ég fékk tölfræði. Síðan 2014, minnir mig, hafa borist 14 ákærur og af þeim 14 ákærum sem hafa verið gefnar út voru átta vegna hatursorðræðu sem beint var til einhvers á grundvelli trúarbragða, þjóðernis eða kynþáttar. Af þessum átta ákærum var sakfellt í sex málum í héraði. Í einu máli var sýknað og eitt mál var fellt niður af lögreglunni. Ég hefði persónulega viljað sjá a.m.k. eitt mál fara fyrir Hæstarétt þannig að dómafordæmi gæti skapast fyrir því að beita lagaákvæðinu, sem sagt 233 gr. a, á grundvelli trúarbragða, þjóðernis eða kynþáttar, en við þurfum greinilega bara bíða. Þetta er vissulega betra sakfellingarhlutfall heldur en ég bjóst við en samt er fólk auðvitað tvístígandi með að kæra hatursorðræðu af því að það vantar eitthvað upp á. Ég veit ekki hvort það vanti upp á lagaákvæðið sjálft eða meðferð máls innan lögreglunnar og því held ég að við ættum að líta til fleiri atriða þegar kemur að hatursorðræða heldur en bara orðalags lagaákvæðisins. Svo er líka bara spurning hvort fólk viti almennt um þetta ákvæði og að það að þola hatursorðræðu sé refsivert og hvað fellur undir hatursorðræðu.

Núna undanfarið í fjölmiðlum hefur verið ágreiningur um hvað telst til hatursorðræðu og ég held að það fari ekki á milli mála að það sé niðrandi tal sem er beint að einhverjum á grundvelli þess að þau séu í minnihlutahópi. Þess vegna er rosalega mikilvægt að athuga hvað er að klikka þegar kemur að annaðhvort beitingu lagaákvæðisins eða lagaákvæðinu í framkvæmd, hvort það sé viðhorfið innan samfélagsins. Svo verð ég líka að segja að það er vafasamt að bæta við upptalningu eins og hæstv. dómsmálaráðherra gerir hér í 5. gr. frumvarpsins. En þar stendur, með leyfi forseta:

„Í stað orðsins „þjóðernis“ í 233. gr. a laganna kemur: þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna; og á eftir orðinu „trúarbragða“ í sömu grein kemur: fötlunar, kyneinkenna.“

Þetta er náttúrlega bara upptalning á hlutum sem gætu haft áhrif á það hvað hópur telst geta sætt hatursorðræðu, svona til að túlka ákvæðið. En það er ekkert talað um um hvers konar ummæli geta fallið þar undir og það er heldur ekki talað beitingu lagaákvæðisins þannig séð. Nú vitum við að það er búið að gagnrýna þetta lagaákvæði frekar mikið og það er ekki hægt að bæta við fleiri upptalningum í hvert skipti sem lagaákvæði er gagnrýnt. Við erum með fullt af lagaákvæðum sem vantar upp á í auðgunarbrotakaflanum í almennum hegningarlögum en þar er ekki verið að bæta við og telja upp hluti sem gætu verið auðgunarbrot. Við þurfum að líta til allra þátta sem varða þetta. Það er auðvitað málsmeðferð stjórnvalda og hvernig lögreglan tekur á móti þessum málum. Ég persónulega er mjög mikill talsmaður tjáningarfrelsis og þess vegna held ég að við þurfum að fara mjög varlega í að bæta þetta lagaákvæði, m.a. með því að hafa til hliðsjónar túlkun Hæstaréttar á lagaákvæðinu til að vita hvað það má ganga langt í að skerða tjáningarfrelsi annars manns. Hér er grundvallardómur þegar kemur að beitingu lagaákvæðisins. Þetta er, held ég, einn af fáum hæstaréttardómum sem hafa fallið um hatursorðræðu. Þetta er dómur nr. 415/2017, í máli Samtakanna '78. Þar lagði Hæstiréttur eftirfarandi til grundvallar, með leyfi forseta:

„Á löggjafanum hvílir ekki aðeins sú skylda að haga lögum á þann hátt að tjáningarfrelsi sé ekki skert í ríkara mæli en svigrúm stendur til eftir kröfum 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Löggjafanum er einnig skylt að tryggja með lögum einkalífi manna friðhelgi, sbr. 1. mgr. 71. gr. hennar, og stuðla jafnframt að vernd þeirra, sem hætt er við að sæti vegna aðstæðna sinna eða sérkenna útbreiddu aðkasti eða andúð, og gæta þar með allsherjarreglu. Þegar horft er til þessara hagsmuna, sem meðal annars 233. gr. a almennra hegningarlaga er sett til að vernda, verða þeir samkvæmt lýðræðishefðum og eftir heildstæðu mati á öllum atvikum málsins að vega þyngra en óheft frelsi ákærða til að tjá skoðanir sínar á þann hátt sem hann gerði. Er þá jafnframt tekið fullt tillit til þess að tjáningarfrelsi hans verði ekki skert í ríkara mæli en nauðsyn ber til svo að náð verði því lögmæta markmiði, sem 233. gr. a almennra hegningarlaga stefnir að, en reglur þess ákvæðis verða að teljast nauðsynlegar í skilningi 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar til að sporna við fordómum, andúð og fyrirlitningu í garð afmarkaðra þjóðfélagshópa, sem unnt væri að stuðla að með hatursorðræðu.“

Frú forseti. Þessi dómur lagði einmitt til grundvallar hérna hvaða hagsmuni þarf að vernda með þessu ákvæði. Eins og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom inn á áðan, miðað við ummælin sem hafa verið látin falla bæði á netinu og opinberlega um tiltekinn hóp eða tiltekna hópa, t.d. í garð trans fólks, í garð útlendinga og fólks af öðrum kynþætti þá verð ég að segja að það er ekki verið að virða þetta dómafordæmi og það er ekki verið að virða upprunalegan vilja löggjafans. Því finnst mér hlutverk Alþingis vera algjört grundvallaratriði þegar kemur að breytingum á lögum, sérstaklega lögum sem eiga að stuðla að því að vernda viðkvæma þjóðfélagshópa, það er okkar hlutverk, hlutverk löggjafans að skoða lögin í takt við tíðarandann og við þurfum að taka til okkar þróunina í dómaframkvæmd. Ef löggjöfin hefur þróast á skjön við upprunalegan vilja löggjafans þá ber að breyta henni. Það er einfaldlega okkar hlutverk. Og eins og ég kom inn á í byrjun þegar ég steig í pontu þá erum við frekar treg við að breyta almennum hegningarlögum af því að þetta er umfangsmikill lagabálkur og margt sem þarf að taka til greina og allt það. En halló, þessi dómur, sem ég var að reifa hér sló því föstu að þegar horft væri til þeirra hagsmuna sem 233. gr. a á að vernda þá yrðu þeir að vega þyngra en tjáningarfrelsi aðila til að tjá sig á hatursfullan hátt. Þetta er vilji löggjafans og þannig hafa dómstólar líka túlkað þetta þannig að við þurfum líka að taka það til greina.

Eins og ég kom inn á áðan er það rosalega stór réttarbót að bæta við refsiþyngingarheimild í 1. mgr. 70. gr. hegningarlaga og það lýtur að refsihæðinni og það þarf að skoða það þegar verið er að ákveða refsingu og ég fagna því innilega.

Svo verð ég líka að koma inn á 4. gr. í frumvarpinu. Það er ítrekunarheimild fyrir 210. gr. a og b sem leiðir til þess að ef maður hefur gerst brotlegur við þessi lög og hefur áður verið sakfelldur fyrir brot gegn þessum greinum þá er heimild til að þyngja refsinguna. En ég spyr: Hvers vegna er ekki ítrekunarheimild fyrir brot gegn ákvæði um hatursorðræðu líka? Er það ekki nógu alvarlegt brot til að geta ítrekað fyrir dómstólum? Var aflað góðra umsagna við meðferð þessa máls? Ég veit það ekki. Ég var ekki inni á þingi þegar málið var í nefnd. Ég man að ég sá að þetta mál var lagt fram og því var útbýtt þegar ég var inni á þingi, síðasta daginn minn inni á þingi, og ég vildi svo mikið fylgja því eftir en því miður gafst ekki tækifæri til þess þannig að ég væri alveg til í að fá svör við því, ég veit ekki hvort það sé einhver hér sem getur svarað því, hvers vegna það hefur ekki verið hugsað út í ítrekunarheimild fyrir 233 gr. a. Þetta er alvarlegt brot í sjálfu sér og ég held að það yrði mikil réttarbót fyrir þolendur hatursorðræðu ef það væri refsihækkunarheimild gagnvart manneskju sem hefur áður gerst brotleg gegn þessu ákvæði. Reynslan hefur einmitt sýnt að hatursorðræða leiðir oft til hatursglæpa og þess vegna held ég að það þurfi að taka hatursorðræðu miklu alvarlegar heldur en við gerum nú þegar. Ég verð að segja að því miður líður mér eins og það sé bara ekkert verið að taka þessu alvarlega. Hæstv. forsætisráðherra er vissulega að skipa starfshóp um hatursorðræðu og allt í góðu, en ég vona svo innilega að það séu viðeigandi aðilar í þessum starfshópi og ekki bara einhverjir fulltrúar ráðuneyta og fulltrúar ríkislögreglustjóra og eitthvað svoleiðis heldur raunverulegt fólk sem hefur reynslu af alvöruhatursorðræðu og er með góðar hugmyndir um hvernig það sé hægt að bæta löggjöfina. Og það þarf meira að segja ekki bara að vera löggjöfin, þetta gæti verið einhver herferð, þetta gæti verið vitundarvakning. Það er hægt að gera svo ótrúlega margt. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að við stoppum ekki hér eftir þessa lagabreytingu því það þarf að líta til margra mismunandi þátta þegar kemur að því að bæta lagaákvæði sem eiga að stuðla að vernd viðkvæmra hópa innan samfélagsins og það snertir líka viðhorfið innan samfélagsins. Það eru ekki bara lögin. Það þurfa að vera fordæmi fyrir því að lögunum sé framfylgt og eins og ég taldi upp áðan hefur verið sakfellt í sex málum í héraði og ekki eitt mál á grundvelli t.d. trúarbragða, þjóðernis eða kynþáttar hefur ratað í Hæstarétt. Þess vegna spyr ég: Er þetta ekki nógu alvarlegt til að fara fyrir Hæstarétt? Erum við ekki búin að ná það langt? Ég er mikill talsmaður þess að skapa fleiri dómafordæmi þannig að við vitum betur hvernig við eigum að túlka lögin sem við setjum, þannig að handhafar framkvæmdarvaldsins viti betur hvernig það eigi að túlka lögin sem Alþingi setur og beita þeim. Það er bara það sem Hæstiréttur gerir, hann slær því föstu og allt í góðu með það. En við erum bara ekki komin nógu langt. Ég verð að segja það hérna að það er mjög oft sem mjög furðuleg mál fara fyrir Hæstarétt. Ég ætla ekki að segja að þau eigi ekki erindi þangað. Ég vil halda að þau fari fyrir Hæstarétt þannig að það sé hægt að túlka viðkomandi lagaákvæði betur og það er það sem ég hefði viljað sjá hér en því miður erum við ekki komin þangað. Það eru ekki fordæmi fyrir því.

Grundvallaratriðið varðandi hatursorðræðu er tjáningarfrelsið sem hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom hérna inn á áðan. Það sem ég er að segja er að óheft tjáningarfrelsi leiðir oft til hefts tjáningarfrelsis minnihlutahópa. Við verðum hrædd — þau, við, ég veit ekki hvort ég á að nota — við verðum hrædd við að tjá okkur af því að annað fólk hefur víst meira tjáningarfrelsi heldur en við. Það er auðvitað mjög mikið áhyggjuefni og við þurfum að finna leiðir til þess að geta stuðlað að samfélagi þar sem það þarf ekki að hefta tjáningarfrelsi neins heldur þar sem ríkir (Forseti hringir.) grundvallarvirðing milli alls konar hópa í samfélaginu. Ég hlakka til að sjá það gerast (Forseti hringir.) og vonandi mun starfshópur hæstv. forsætisráðherra stuðla að því.