Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[17:38]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Frú forseti. Algjörlega, ég held að við séum alveg á sama stað hvað varðar hatursorðræðu. Það þarf líka að taka samtal um ábyrgð lögreglunnar hérna af því að dóttir hv. þingmanns er örugglega ekki eina manneskjan sem hefur kært til lögreglu og málið er fellt niður og því væri ég til í betri rökstuðning þegar lögreglan fellir mál niður heldur en: Málið telst ekki vera líklegt til sakfellingar. Ókei, á hvaða grundvelli? Á hverju byggir lögreglan þetta mat? Ég held að þetta gæti meira að segja verið teygt yfir alls konar mál sem rata til lögreglu, ekki bara mál sem varða hatursorðræðu eða hatursglæpi eða eitthvað þannig. Þetta er líka bara stór kerfislægur vandi og við erum ekki komin lengra en það að hafa þetta einmitt skrifað í lög. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni þá þarf líka almenn viðhorfsbreyting að eiga sér stað. Við munum örugglega öll eftir málinu 2014 þar sem svínshausum var „dömpað“, með leyfi forseta, á lóð mosku og lögreglan tók bara upp svínshausana og henti þeim í ruslið og taldi þetta vera eignaspjöll. Ég meina, halló! Þetta er hatursglæpur. En við vorum ekki komin lengra. Lögreglan gat ekki „spottað“ hatursglæpinn því að við vorum ekki búin að eiga nógu mikið og gott samtal um þetta. En þetta er auðvitað sífellt að koma skýrar í ljós, sérstaklega með tilkomu samfélagsmiðla og hegðun á samfélagsmiðlum sem hefur verið kærð til lögreglu, m.a. dómurinn sem ég var að vísa í hérna rétt áðan. Ég held að stjórnvöld séu aðeins að vakna og þetta sé allt að koma. Ég hef fulla trú á að þetta muni koma en ég held að við sem löggjafinn þurfum að flýta aðeins fyrir.