Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[18:36]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og hans innsýn í þetta mál. Mig langar til að vekja máls á eilítið dýpri umræðu varðandi hluta af þessu frumvarpi sem varðar þyngingu refsingar vegna barnaníðs og útvíkkun þess og annað, sem ég er sammála og tel gríðarlega mikilvægt. Hins vegar vakna margar spurningar upp við umræðu um þetta mál. Nú skrifaði ég mastersritgerð fyrir ansi mörgum árum síðan um siðferðilegan grundvöll refsinga og þurfti að vinna mikla rannsóknarvinnu við skrif þeirrar ritgerðar. Mér fannst athyglisvert að skoða ítrekunartíðni í mismunandi brotaflokkum þar sem ástæðan fyrir því að ég fékk hugmyndina að ritgerðinni var sú að það var alla vega á blaði gríðarlega takmörkuð ítrekunartíðni í nauðgunarmálum en það var hins vegar í samfélaginu búið að kalla eftir þyngri refsingum fyrir nauðganir. Það var tilefni þess að ég skrifaði þessa ritgerð, vegna þess að ég skildi ekki af hverju fólk vildi þyngri refsingar þegar ítrekunartíðnin var engin. Taldi ég refsiþyngdina ekki vera vandamálið og ég tel það ekki enn en það er aðeins önnur umræða. Það sem vakti hins vegar athygli mína þegar ég var að bera saman ýmsa brotaflokka var það að einstaklingar sem níðast á börnum skera sig úr allri tölfræði, hvort sem skoðuð er afbrotafræði, félagsfræði, sama frá hvaða sjónarhorni það er, þeir skera sig úr. Ítrekunartíðnin er nánast algjör. Það er í rauninni með mikilli einföldun hægt að segja að einstaklingur sem hefur brotið af sér með þessum hætti sé líklegur til þess að brjóta af sér aftur.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji fangelsisrefsingar fyrir brot af þessu tagi nóg til að vernda börn gegn brotum af þessu tagi.