Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[15:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Stórviðburðir setja um þessar mundir svip á öryggis- og varnarmál í okkar heimshluta. Þar vísa ég ekki einungis til yfirstandandi innrásar Rússlands í Úkraínu heldur áhrifanna sem þessi ógnvænlegustu hernaðarátök sem átt hafa sér stað í álfunni frá lokum seinni heimsstyrjaldar hafa haft, m.a. í okkar nærumhverfi. Innrás Rússlands í Úkraínu hefur sett í uppnám hina viðteknu reglu og grundvallarákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem undantekningarlítið hefur verið virt undanfarna áratugi í alþjóðlegum stjórnmálum; að innrásarstríð í landvinningartilgangi sé ekki umborið. Afleiðingar stríðsins ná langt út fyrir okkar heimshluta, m.a. vegna þeirra ískyggilegu áhrifa á fæðuöryggi sem hernaðar Rússlands hefur. Virðulegur forseti. Tvö Norðurlandanna, Finnland og Svíþjóð, hafa nú ákveðið að hverfa frá langvarandi stefnu sinni um að standa utan bandalaga í öryggis- og varnarmálum og sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Bæði ríkin tilkynntu formlega um þessa ákvörðun hinn 18. maí sl.

Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar þar sem leitað er eftir heimild Alþingis til að staðfesta fyrirhugaða viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn frá árinu 1949 þegar þeir liggja fyrir. Viðbótarsamningarnir varða aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu. Fái ríkin aðild eins og stefnt er að mun það skila miklum ávinningi, bæði fyrir ríkin tvö og öll bandalagsríki, og Finnland og Svíþjóð munu njóta þeirra varnarskuldbindinga Norður-Atlantshafssáttmálans sem fram kemur í 5. gr. hans. Þá munu varnir og fælingarmáttur bandalagsríkjanna í heild styrkjast og þar með öryggi ríkja á norðurjaðri bandalagsins, því bæði Finnland og Svíþjóð hafa yfir öflugum herjum að ráða. Þessi afdrifaríku skref munu hafa víðtæk og jákvæð áhrif á norrænt varnarsamstarf sem hefur hingað til verið miklu umfangsminna en það rótgróna samstarf sem ríkin fimm hafa átt á sviði menningar, félagsmála, umhverfismála og heilbrigðismála, svo fátt eitt sé nefnt, jafnvel þótt norrænu samstarfi um öryggis- og varnarmál hafi einnig vaxið fiskur um hrygg. Í því samhengi má einnig nefna vaxandi samvinnu á ýmsum sviðum milli Norðurlandanna fimm og vinaþjóða okkar í Eystrasaltinu, Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Milli þessara átta ríkja er sterkur þráður sem skiptir miklu máli að hlúa að og treysta.

Ég vil hér nota tækifærið og fagna því að umsókn og Finna og Svía um aðild að Atlantshafsbandalaginu skuli nú komin fram og óska þessum nágranna- og vinaþjóðum okkar til hamingju með þá ákvörðun og þann áfanga.

Forsætisráðherrar Íslands, Danmerkur og Noregs hafa lýst stuðningi við umsóknina og það hafa utanríkisráðherra ríkjanna sömuleiðis gert. Með aðild Finnlands og Svíþjóðar og bandalaginu mun hverfa ákveðin óvissa sem hefur ríkt um alþjóðlega stöðu þeirra og varnir kæmi til þess að öryggi þeirra yrði ógnað. Aukinn fyrirsjáanleika í öryggis- og varnarmálum á Eystrasaltssvæðinu verður því heilladrjúgt skref í þágu friðar og aukins stöðugleika í okkar heimshluta. Þá tel ég rétt að fagna þeim yfirlýsingum fjölmargra bandalagsríkja að þau muni taka þátt í að tryggja öryggi Svíþjóðar og Finnlands þar til aðildin er frágengin.

Virðulegur forseti. Eins og flestum er kunnugt stóðu vonir til þess að aðildarviðræður gætu hafist nánast samstundis og umsóknirnar bárust. Þá var einnig gert ráð fyrir að slíkar viðræður gengju mjög fljótt fyrir sig. Sú staða er uppi nú að 29 af 30 aðildarríkjum bandalagsins hafa þegar lýst stuðningi við umsóknirnar en eitt aðildarríki. Tyrkland, hefur ekki talið sér fært að gefa samþykki fyrir því að sú vinna geti hafist. Ég get ekki annað sagt hér á þessum tímapunkti en að ég voni að lausn finnist á því fljótlega. Í því samhengi er rétt að geta þess að ákvörðun mín um að leggja fram þessa þingsályktunartillögu nú er í samræmi við þann einbeitta ásetning okkar Íslendinga að sýna stuðning við umsóknirnar í verki. Í þessum efnum erum við samferða frændþjóðum okkar í Noregi og Danmörku en þingleg meðferð á sambærilegum tillögum er að hefjast í báðum þessum ríkjum og er þar einnig fylgt þeirri aðferð að fara fram á samþykki út frá því hvernig hugsanlegir aðildarsamningar munu líta út en þeir fylgja jú mjög föstu formi. Þegar þær hefjast er þess vænst að aðildarviðræðurnar gangi hratt fyrir sig. Finnland og Svíþjóð hafa í raun uppfyllt langflest skilyrði aðildar nú þegar, þau hafa t.d. verið aðilar að samstarfi í þágu friðar sem hefur verið við lýði frá árinu 1994 og tekið þátt í heræfingum og friðaraðgerðum víða um heim með bandalaginu. Eins minni ég á að bæði Finnland og Svíþjóð hafa tekið þátt í æfingum á Íslandi tengdum loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins. Þá er mikilvægt að hafa í huga að Atlantshafsbandalaginu er ætlað að standa vörð um öryggi ríkja sem deila sameiginlegum gildum um lýðræði, einstaklingsfrelsi og réttarríki. Við blasir að Svíþjóð og Finnland eru framarlega hvað þessi sameiginlegu gildi varðar.

Ísland hefur síðustu áratugina staðfest og fullgilt fjölmarga samninga um stækkun bandalagsins. við stofnun þess voru bandalagsríkin 12 og um hálfrar aldar skeið bættust aðeins fjögur ný ríki við. Nú eru þau alls 30 og eru þar á meðal ríki sem áður voru hluti af Sovétríkjunum, t.d. Eystrasaltsríkin þrjú, en einnig fjölmörg ríki sem lutu óbeinni stjórn Sovétríkjanna eða voru undir miklum áhrifum þeirra.

Að loknum aðildarviðræðum er stefnt að því að gengið verði frá viðbótarsamningum við ríkin tvö. Samningar um aðild að bandalaginu verði því tilbúnir til undirritunar sem fyrst en að því loknu taki við fullgildingarferli, fyrst í öllum bandalagsríkjunum 30 en síðan í Finnlandi og Svíþjóð. Í 2. gr. viðbótarsamninganna verði kveðið á um að þeir öðlist því aðeins gildi að allir aðilar að Norður-Atlantshafssamningnum hafi tilkynnt um staðfestingu sína á þeim.

Virðulegur forseti. Ísland hefur ávallt skipað sér í hóp þeirra ríkja sem hafa lagt áherslu á að bandalagið stæði opið þeim lýðræðisríkjum sem sækjast eftir inngöngu að því tilskildu að þau uppfylli öll viðeigandi skilyrði. Þannig hefur Ísland staðfastlega stutt þá stækkun bandalagsins sem átt hefur sér stað í áföngum frá því að ríkin voru 12 við stofnun þess árið 1949. Við höfum litið svo á að með útvíkkun bandalagsins myndum við renna frekari stoðum undir stöðugleika og frið í Evrópu en sömuleiðis að treysta grunnhugmyndir lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis í sessi. Markmið stækkunar er því aldrei og er ekki að ógna öðrum ríkjum heldur viljum við standa vörð um rétt ríkja til að ráða sínum málum sjálf, þar með talið að kjósa sér samstarfsaðila í varnar- og öryggismálum með gagnkvæma hagsmuni þeirra og samstarfsaðilanna í huga. Eins og ég gat um áður hafa Finnland og Svíþjóð þegar lagt af mörkum í samstarfi við ríki Atlantshafsbandalagsins. Eins til viðbótar vil ég láta þess getið að verði ríkin tvö aðilar munu þau sjálf greiða kostnað við aðlögun eigin varna að samræmdu varnarkerfi bandalagsins. Þótt gera megi ráð fyrir að varnaráætlanir bandalagsins taki tillit til áætlana Finnlands og Svíþjóðar líkt og annarra ríkja munu núverandi bandalagsríki ekki þurfa að auka útgjöld sín til varnarmála eða bera viðbótarkostnað af inngöngu Finnlands og Svíþjóðar.

Virðulegi forseti. Það er von mín að þessi tillaga til þingsályktunar verði skjótt tekin fyrir í utanríkismálanefnd þingsins. Með heimild þingsins verðum við í stakk búin til að hraða staðfestingarferlinu af okkar hálfu enda liggur fyrir að ríkin eru þegar í stakk búin að uppfylla inntökuskilyrði. Ég minni hér á að leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins sem stendur fyrir dyrum í Madrid í lok júní. Ég tel að það væri sterk vísbending um óbilandi stuðning Íslands við hinar norrænu grannþjóðir okkar að Alþingi samþykki hið fyrsta þessa heimild. Hér eru miklir hagsmunir í húfi og mikilvægt tækifæri fyrir Ísland til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í þágu öryggis og friðar í okkar heimshluta. Á þessum tímum þegar friðsamar grannþjóðir okkar og nágrannar í Evrópu upplifa á eigin skinni ógn og óvissu tel ég rétt að við Íslendingar, ríkisstjórn Íslands og Alþingi sýnum samhug og samstöðu í verki. Það gerum við m.a. með því að samþykkja þessa heimild bæði hratt og vel með góðum óskum.

Að lokum, virðulegur forseti, legg ég til að málinu verði vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar að þessari umræðu lokinni.