Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin starfar eftir þjóðaröryggisstefnu sem við höfum sett okkur þar sem aðild að Atlantshafsbandalaginu er hornsteinn þeirrar stefnu og um það ríkir nákvæmlega enginn ágreiningur í ríkisstjórn Íslands. Sömuleiðis er ríkisstjórnin einhuga um að styðja aðild Finna og Svía og sjálfsákvörðunarrétt þeirra til að óska eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu og enginn ágreiningur um það heldur. Þá hefur forsætisráðherra tekið þátt í yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna um þann stuðning til Svía og Finna við inngöngu í Atlantshafsbandalagið. Þannig að það er hvorki vandkvæðum bundið að starfa eftir þjóðaröryggisstefnu þar sem aðild að bandalaginu er hornsteinn hennar né heldur að vinna eftir því, hvort sem það er á NATO-fundum sem utanríkisráðherra, á NATO-fundum sem varnarmálaráðherra eða þegar leiðtogafundir NATO eru haldnir þar sem forsætisráðherra sjálfur situr. Það hefur engum vandkvæðum verið bundið, það samstarf og það starf, hvorki á milli aðildarríkjanna, innan ríkisstjórnar eða okkar við okkar fólk í Brussel sem þar starfar hjá Atlantshafsbandalaginu. Þannig að þótt það kunni að þykja áhugavert eða vekja spurningar einhvers staðar um stefnu eins flokks í ríkisstjórn þá hefur þessi ákvörðun legið fyrir í öll þessi ár og eftir henni er starfað af miklum heilindum. Mér hefur þótt forsætisráðherra standa sig með stakri prýði að setja þjóðaröryggisstefnu fremst og tala út frá henni sem þjóðarleiðtogi okkar hér og leiðtogi ríkisstjórnarinnar og það hefur einfaldlega ekki verið neinum vandkvæðum bundið.