Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst að fyrri vangaveltum hv. þingmanns sem ætlaði að halda aftur af sér en gerði það síðan ekki, þá segi ég aftur: Það hefur ekki verið vandamál og ríkisstjórnin öll hefur starfað eftir þjóðaröryggisstefnu og ég hef engar áhyggjur af því að svo verði ekki áfram. Nú hefur hv. þingmaður sjálfur setið í ríkisstjórn og meira að segja leitt hana og veit hvernig það er þegar þær eru myndaðar og hvernig hver og einn ráðherra ber síðan ábyrgð á sínum málaflokki og saman er pólitísk sátt um ákveðin mál. En ég ætla ekki að fara nánar út í stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um varnar- og öryggismál.

Varðandi síðari spurninguna þá eru þetta þannig vangaveltur að mér þætti óábyrgt af mér að standa hér og svara í einhverjum viðtengingarhætti um einhverja stöðu sem alls ekki er upp komin. Vissulega er það leitt. Mér finnst það óviðeigandi að ótengd mál, a.m.k. alls ekki beintengd, séu dregin inn í þessa atburðarás sem, rétt eins og hv. þingmaður sagði, er auðvitað stórmál og mjög alvarlegt mál og mikið mál að tvö ríki séu að sækjast eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu eftir allt sem á undan er gengið og það sem breyttist 24. febrúar síðastliðinn. En það er sú staða sem uppi er núna. Hún er á mjög viðkvæmu stigi og fólk að leggja sig fram um að leysa þá stöðu þannig að ég get ekki annað en vonað að þetta leysist og að Tyrkland samþykki í rauninni það að aðildarviðræður geti hafist og þetta verði klárað. Þangað til annað kemur í ljós þá mun ég tala með þeim hætti að ríkin verði 32, vonandi sem allra, allra fyrst.