Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Georgía er í umsóknarferli en Moldóva er ekki umsóknarríki. Við höfum sagt og munum gera það áfram að við styðjum í raun að bandalagið sé með opnar dyr gagnvart aðildarumsóknum. Við höfum stutt þá reglu ávallt og gerum enn. Georgía á lengra í land og það er vissulega rétt sem hv. þingmaður segir varðandi þá flóknu stöðu sem þar er og hverjum er um að kenna. En það er veruleikinn sem blasir við og gerir málið flóknara. Það þarf síðan auðvitað, gagnvart Georgíu eins og öðrum ríkjum, samþykki allra ríkja og það ferli tekur einfaldlega tíma. En við höfum verið mjög skýr með það að dyrnar séu opnar gagnvart þeim ríkjum sem það kjósa og taka ákvörðun um að vilja sækjast eftir aðild og við munum áfram, hér eftir sem hingað til, tala þannig á þeim vettvangi.