Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

flutningur aðseturs Vatnajökulsþjóðgarðs, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[12:09]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég ætla ekki hafa þetta langt. Flest allt sem er um þetta segja hefur þegar verið sagt. Skýrsla hæstv. ráðherra er áhugaverð og ég þakka fyrir hana. Þingheimur allur sammælist sennilega um að það sé Vatnajökulsþjóðgarði til góðs að lögheimili stofnunarinnar verði flutt til Hafnar og að framkvæmdastjóri þjóðgarðsins starfi þar nær þjóðgarðinum sjálfum.

Eftir sitja þó nokkrar spurningar um áætlaða framkvæmd tilfærslunnar. Í tilkynningum og í skýrslu ráðherra er talað um að framkvæmdastjóri, fjármálastjóri og þrír aðrir starfsmenn hafi nú til dags staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu og starfsaðstöðu í Garðabæ en að í kjölfar breytinganna muni framkvæmdastjóri hafa aðalstarfsstöð á Höfn í Hornafirði. Ekkert er tekið fram um hitt starfsfólkið og má því skilja tilkynninguna þannig að þau verði áfram í Garðabæ á meðan framkvæmdastjórinn fer austur. Ef þetta er raunin dúkkar upp sú spurning óhjákvæmilega hvort það væri ekki einfaldlega best að allt starfsfólkið hefði aðstöðu í Höfn á sama hátt og framkvæmdastjóri. Það virkar eins og hliðrunin sé bara upp á punt ef lögheimilistilfærslunni fylgir bara einn starfsmaður á meðan afgangurinn situr eftir á höfuðborgarsvæðinu.

Ég velti aðeins fyrir mér líka hvernig það virkar að hafa framkvæmdastjóra stofnunarinnar í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð frá fjármálastjóranum og öðrum starfsmönnum stofnunarinnar. Þó að við séum öll að færast í átt til starfa án staðsetningar þá veltir maður fyrir sér hver sýnin sé þarna, hvort þetta sé, eins og ég sagði, upp á punt.

Að því sögðu finnst mér breytingin í meginatriðum til góðs enda hlýtur þingheimur að vona að þessi tilfærsla þjóni yfirlýstum tilgangi sínum og efli starf þjóðgarðsins. Í stærra samhengi má þá spyrja sig hvort önnur þjóðgarðsmál séu ekki meira áríðandi, eins og til að mynda stofnun hálendisþjóðgarðs sem situr enn á hakanum.