Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:21]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Mig langar að benda á kafla í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem fjallað er um viðbrögð heilbrigðisráðuneytisins. Þar er einmitt tekið á þessu um samninga um kaup á sálfræðimeðferð og þar er aðeins fjallað um óformlegan starfshóp sem hefur verið settur á laggirnar og tillögur sem verið er að vinna. Ég vænti þess að tillögur komi frá heilbrigðisráðuneytinu sem fyrst til að bregðast við þessum brýna vanda og sérstaklega fyrir unga fólkið sem hefur beðið og fyrir námsmenn eins og þingmaður nefnir. Þetta er mikilvægt og það er auðvitað ástæða fyrir því að meiri hluti var fyrir þessu máli hér á þingi. Þeir sem greiddu atkvæði með því voru sammála því að þetta væri mikilvægt og að ráðast þyrfti í þetta mál. Hefði ég verið á þingi þegar það var samþykkt hefði ég líka greitt atkvæði með því.