Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:25]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Varðandi forvarnirnar þá er ég hjartanlega sammála því að sálfræðiþjónusta er liður í fyrirbyggjandi þjónustu sem við ættum að vera að veita á breiðari grunni. Við erum að fara inn í skólana með snemmtæka íhlutun. Við erum með skimanir fyrir yngri börnin og við erum að læra svolítið á síðustu árum hvernig við ætlum að tækla þessa þjónustu betur til framtíðar. Við sjáum þessa gríðarlegu fjölgun á örorku vegna geðraskana og þetta þurfum við að tækla miklu fyrr, á fyrri stigum. Ég er alveg sammála því að forvarnagildi sálfræðiþjónustu er líka mikið. Hvað varðar athugasemdir Ríkisendurskoðunar um svörun þá var heimsfaraldur í gangi. Geðheilbrigðisþjónusta er veitt á svo mörgum stigum og margar undirstofnanir sem þurfti að kalla eftir gögnum frá. Þær voru náttúrlega allar búnar að skipta sér upp á alls konar vegu og bregðast við reglugerðum um sóttvarnareglur vegna Covid. Skilningur er á því að svör hafi borist seint út af heimsfaraldrinum. En svo er það líka mjög alvarlegt að við skulum ekki hafa þessi gögn og þessar tölulegu upplýsingar í hendi. Mér finnst mjög erfitt að við séum að setja okkur stefnu og fjalla um mál þegar við höfum ekki öll gögnin konkret, þegar allar upplýsingarnar liggja ekki fyrir. Það er eitthvað sem verið er að tækla og er ofboðslega mikilvægt þegar kemur að því að móta stefnu í geðheilbrigðismálum til framtíðar.