Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:29]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að tekið verði á þessum gagnavanda. Það er ekki eðlilegt að lagaleg flækja sé fyrirstaða þess að Embætti landlæknis geti kallað eftir gögnum frá undirstofnunum. Það er mál sem er í vinnslu og þarf að leiðrétta. Það er áhugavert að sjá að ekki hefur orðið hik í þeirri framkvæmd SÁÁ að safna gögnum með nýjum persónuverndarlögum en það verður það samt hjá hinu opinbera. Það er ágætispunktur í því að tala um að auka umsvif einkarekinnar heilbrigðisþjónustu. Það er ánægjulegt að hv. þingmaður skuli tala um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu. Ég hef einmitt lagt fram þingsályktunartillögu þar sem ég legg til að heilbrigðisráðherra geri Sjúkratryggingum að bjóða út rekstur heilsugæslu á Akureyri. Ég vil veg einkarekinnar heilbrigðisþjónustu sem mestan. Ég tel mjög mikilvægt að við reiðum okkur á fleiri hendur í kerfinu og það er algerlega skýr afstaða mín hvað það varðar að hleypa fleirum að borðinu. Mér finnst það bara til marks um að við getum treyst öðrum en bara opinbera kerfinu fyrir því að veita þessa þjónustu.