Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:31]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að svara þessari fyrirspurn frá mér. Þetta er einmitt málið og þetta er það sem oft hefur verið bent á. En stundum er talað fyrir daufum eyrum. Við megum ekki vera algerlega föst í þeirri hugsun að upphaf og endir alls, þegar kemur að þjónustu við fólk, jafnvel viðkvæmri þjónustu, þurfi að vera að launatékkinn komi frá hinu opinbera, annaðhvort frá ríki eða sveitarfélagi. Manni virðist einmitt að þessi skýrsla leiði það svolítið í ljós að sums staðar væri hægt að útvíkka hlutina á þann veg að leita frekar til aðila sem vilja stofna einhvers konar einkarekstur utan um tiltekna þætti þjónustunnar, og þá auðvitað með því fororði, sem alltaf hefur verið leiðarstef hjá okkur í Viðreisn, að það sé þá eitthvert batterí til sem er nægilega öflugt til að sinna eftirliti og að það sé algjörlega skýrt hvað verið sé að kaupa og á hvaða verði. Sá aðili gæti auðvitað verið Sjúkratryggingar Íslands. Ég vísa í heilsugæslustöðvarnar í þessu sambandi hvað það varðar að þeir sem nota þjónustuna virðast sammála um að í það minnsta sé þjónustan ekki verri hjá þeim sem eru einkareknar en hjá hinum.

Í umfjöllun um þessa skýrslu bendir Geðhjálp á tölulegar upplýsingar þegar kemur að fjárframlögum. Bent er á, hvað varðar framlög til geðheilbrigðismála, að 4,6% fara til geðheilbrigðismála en umfang geðheilbrigðisþjónustunnar í kerfinu er hins vegar 30%. Við heyrðum í hæstv. fjármálaráðherra tala um það hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma í morgun að í sjálfu sér væri ekki endilega hægt að slá því föstu að vandi kerfisins væri fjárhagsvandi, það þyrfti að horfa til fleiri hluta.

Ég ætla þá að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist vera samræmi þarna á milli, þ.e. hve lítill hluti af heildarfjármagninu fer í geðheilbrigðisþjónustu og hvort ekki þurfi að laga þá skekkju sem þarna er.