Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:34]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvarið. Ég hef mikinn áhuga á því að fjalla um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Þjónustukönnun sem gerð var 2019, held ég, leiddi í ljós að það var líka mikið traust til einkarekna kerfisins sem kom kannski einhverjum á óvart. Það kom mér ekki á óvart en það kom örugglega einhverjum á óvart. Ánægjan var líka með hæsta móti og ég held að við þurfum að skoða hvort við viljum leyfa fleiri höndum að koma að borðinu úti á landi. Ég held að það séu fjölmörg tækifæri til að hleypa fleiri aðilum að borðinu. Ég held að það sé líka alveg eftirspurn eftir því. Það væri áhugavert að sjá hvort heilbrigðisráðherra hefur áhuga á því að auka einkarekstur í kerfinu úti á landi. Það þarf ekkert að horfa lengst út á land, það er hægt að horfa til Suðurnesja þar sem ákall hefur verið eftir bættri þjónustu og fjölbreyttari þjónustu.

Hvað varðar rammann og fjármagnið og allt það þá held ég að allt sé það spurning um forgangsröðun sem fer fram innan heilbrigðisráðuneytisins. Það er eðlilegt að spyrja sig hvort meira fjármagn eigi að fara í þetta en hitt. En ég held að við séum öll svolítið sammála, og nefndin var alveg sammála, um að við viljum veg geðheilbrigðisþjónustu sem mestan. Það þarf að fara að skila sér inn í kerfið, þær áherslur og sú umræða sem hefur orðið hér í þingsal af hálfu allra. Ég bind miklar vonir við að átak verði gert í þessum málum.