Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:36]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við höfum hér til umfjöllunar skýrslu ríkisendurskoðanda um geðheilbrigðisþjónustu sem hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur haft til umfjöllunar. Í skýrslunni er að finna niðurstöður stjórnsýsluúttektar á stefnu stjórnvalda í geðheilbrigðismálum, innleiðingu hennar, kostnaði og hvort settum markmiðum hafi verið náð. Nefndin kallaði gesti á sinn fund til að fá gleggri mynd af stöðunni og eins var umræða innan nefndarinnar gagnleg.

Að mati Ríkisendurskoðunar er skipulag geðheilbrigðisþjónustu í megindráttum í samræmi við stefnu stjórnvalda en ákveðnir vankantar eru á kerfinu sem draga úr árangri við framkvæmd. Ber þar að nefna manneklu og skort á sérhæfðu starfsfólki, svokölluð grá svæði og biðlista sem eru landlægir, eins og segir í skýrslunni. Niðurstöður skýrslunnar staðfesta að eftirspurn eftir og þörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu eykst ár frá ári, ekki einungis vegna fólksfjölgunar heldur hafa aðrar aðstæður skapast sem auka eftirspurn enn frekar. Nýafstaðinn heimsfaraldur getur haft mikil áhrif, ekki bara sem slíkur heldur getur skortur á þjónustu á meðan honum stóð einnig hafa aukið uppsafnaða þörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu.

Bent er á að íslensk stjórnvöld skorti yfirsýn yfir stöðu geðheilbrigðismála því að upplýsingar um tíðni og þróun geðsjúkdóma liggi ekki fyrir og ekki heldur greining á þjónustu og mannaflaþörf í þessum geira. Í skýrslunni er bent á vöntun á ítarlegri stefnu og skipulagningu í geðheilbrigðisþjónustu sem áður hefur verið í almennri stefnu fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu. Núverandi heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, hefur lagt fram hér á Alþingi stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 og liggur hún fyrir í nefnd. Skýrsla ríkisendurskoðanda er ákall á að við höskum okkur við að afgreiða það mál enda frumskilyrði þess að hægt sé að gera áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu hagsmunaaðila. Þau áhersluatriði sem finna má í framlagðri stefnu í geðheilbrigðismálum lúta að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar. Grundvallarþáttur vellíðunar er að hlúa að geðheilsu alla ævi.

Virðulegur forseti. Umrædd skýrsla staðfestir að geðheilbrigðiskerfið þarfnast breytinga til framtíðar. Það þarf að bregðast fljótt við. Þegar skýrslan var til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd komu gestir sem bæði ræddu stöðuna í dag og framtíðina. Það er ljóst að miklar vonir eru bundnar við það fyrirkomulag sem lög um samþættingu þjónustu í þágu barna boða, það fyrirkomulag gæti bætt líðan og geðheilbrigði fólks til lengri tíma. Markmið laganna er að skapa heildarsýn og ramma um þá þjónustu sem skiptir mestu máli fyrir farsæld barna. Lögin eru þverfagleg og taka til þeirrar þjónustu sem börn njóta í skólum, innan heilbrigðiskerfisins og í félagsþjónustunni. Það var nefnt að yfirfæra mætti hugmyndafræði laganna á samþættingu geðheilbrigðisþjónustu. Þá leggja farsældarlögin ákveðna áherslu á að stjórnsýsla og eftirfylgni mála sé skilvirk og einföld. Það er sannarlega ákall eftir því innan geðheilbrigðiskerfisins. Þetta verklag gæti líka fækkað eða jafnvel útrýmt þessum gráu svæðum sem talað er um í skýrslunni.

Virðulegi forseti. Það er ljóst að setja þarf fókusinn sérstaklega á geðheilbrigðismálin. Geðheilbrigði er undirstaða almennrar líðunar okkar allra. Margt hefur áunnist en það er sérstaklega núna eftir ríkjandi heimsfaraldur sem beina þarf kastljósinu að líðan fólks. Margir upplifa sig félagslega einangraða og á það við um fólk á öllum aldri, fólk sem upplifir sig einmana. Einmanaleiki er skilgreindur sem hin óþægilega tilfinning sem fylgir því að upplifa að félagsþörf manns sé ekki mætt. Rannsóknir hafa sýnt að eldra fólk er oft einmana en einmanaleiki hefur aukist í öllum aldurshópum. Rannsóknir sýna að einmanaleiki er vaxandi hjá ungu fólki á aldrinum 16–24 ára. Kostnaður samfélagsins og einstaklinga vegna einmanaleika er hár og er með margvíslegum hætti. Ef ekkert er gert getur einmanaleiki þróast í alvarleg veikindi, bæði líkamleg og andleg. Ekki var komið sérstaklega inn á það í skýrslunni en þetta er punktur sem mig langar að nefna í þessu sambandi.

Virðulegi forseti. Í umfjöllun nefndarinnar kom skýrt fram mikilvægi þess að geðheilbrigðisteymum var komið á fót um allt land og lýsti nefndin ánægju með tilkomu þeirra. Um er að ræða gríðarlega stórt skref í jafnréttisbaráttu íbúa um allt land hvað varðar aðgengi að heilbrigðisþjónustu og sérstaklega að geðheilbrigðisþjónustu. Með þeim hefur orðið til rými á fyrsta stigi í geðheilbrigðisþjónustu sem áður hefur lent á sjúkrahúsum og þá ekki fyrr en ástandið var komið á alvarlegra stig. Í skýrslunni og fyrir nefndinni tók heilbrigðisráðuneytið undir tilmæli ríkisendurskoðanda um að tryggja þurfi tilvist geðheilsuteyma og efla starfsemi þeirra. Það er mikilvægt að byggt verði undir slíka þjónustu og hún verði efld um allt land og samþætta þarf slíka þjónustu milli heilbrigðis- og félagsþjónustu. Það er einnig mikilvægt að sambærilegu teymi fyrir börn á öðru stigi í heilbrigðisþjónustu verði komið á og vonandi verður það að veruleika innan tíðar. Einnig hefur komið fram að við vinnslu skýrslunnar hafi þjónustu geðheilsuteymis fangelsa verið tryggður rekstur til frambúðar með föstu fjármagni. Það er ánægjuefni og vil ég ítreka mikilvægi þess að því verði viðhaldið.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég ítreka mikilvægi þess að þingheimur afgreiði mál núverandi heilbrigðisráðherra um stefnu í geðheilbrigðisþjónustu til 2030, sem liggur fyrir hér á þinginu. Þar er sannarlega þjóðþrifamál á ferðinni sem ákallandi þörf er á. Samfélagið allt er á því máli að stórefla þurfi geðheilbrigðisþjónustu og ég held að við öll hér inni séum á sömu nótum. Nú er það okkar að sýna í framkvæmd að við tökum málaflokkinn alvarlega og til afgreiðslu. Stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030, sem heilbrigðisráðherra hefur lagt fyrir þingið, er mikilvægt spor í rétta átt. Með bættu skipulagi, betra samtali þjónustuaðila, styttri biðlistum, auknu aðgengi og langtímahugsun í geðheilbrigðismálum má auka hagkvæmni, skilvirkni og árangur í málaflokknum til langs tíma.