Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:46]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir andsvörin. Já, vissulega var mjög góð umræða í nefndinni um skýrsluna og um hitt og þetta. Geðheilbrigðismálin koma víða við, þau koma við á öllum stigum þjóðfélagsins frá vöggu til grafar. Þungu málin, ég er svolítið að horfa til framtíðarinnar í þessari ræðu, hverju við getum breytt. Staðan er alvarleg í dag, ég tek undir það og það kom vel fram. Það kom líka fram að geðheilsuteymin hafa fækkað innlögnum inn á sjúkrahús, það léttir á því kerfi. Það var komið inn á fordóma, t.d. var talað um samráð við notendur. Þetta eru allt skref sem við þurfum að stíga til að bæta það ástand sem er í dag. Í þeirri stefnu sem ég nefndi fyrr í ræðu minni er einmitt talað um samráð við notendur og líka jafnrétti notenda að geðheilbrigðisþjónustu sem við höfum hreinlega ekki haft. Þess vegna er ég alltaf að tala um þessi geðheilsuteymi vegna þess að á litlum stöðum úti á landi var bara ekkert. Fólk fór ekki til heimilislæknisins með eitthvert þunglyndi, þá fékk það bara plástur frá Hansa. Það voru ýmis mál rædd og mikil og góð umræða varð um margt.