Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:50]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er alveg sammála því að við þurfum að horfa á stóru myndina. Geðheilbrigðisþjónusta er veitt á víðum grunni. Hv. þingmaður talaði um VIRK. Við getum talað um fullt af hópum og eflingu um allt samfélagið. Við getum til dæmis nefnt Stígamót, alla þá gríðarlegu hjálp sem er veitt hér og þar í félagasamtökum, í samtökum fólks sem hefur tekið sig saman um ákveðið vandamál, inni á Reykjalundi og víðar. Áðan var rætt um þjónustu sálfræðinga. Ég var á þeirri þingsályktunartillögu og við ræddum þá þjónustu mikið í nefndinni og fleiri þætti sem ég er alveg sammála hv. þingmanni um að við verðum að horfa á. Við þurfum að taka leppana frá augunum og horfa mjög vítt, um allt land, til allra hópa. Við þurfum að byrja fyrr með snemmtækri íhlutun, bara strax í leikskóla. Við getum jafnvel séð strax í vöggu að eitthvað þarf að aðstoða til að skila heilbrigðari einstaklingi út í lífið. Það er svo mikilvægt.