Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[18:20]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er alveg rétt. Skýrslan fjallar aðeins um þessa svokölluðu sókn. Þar er talað um að þörf og eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu aukist ár frá ári. Í skýrslunni er það orðað svona:

„Þrátt fyrir sókn í málaflokknum er geta stjórnvalda til að tryggja þá þjónustu sem þörf er á undir væntingum.“

Það þýðir væntanlega að þú nærð ekki einu sinni að halda í horfinu. Í venjulegum keppnisíþróttum, hlaupum og öðru slíku, væri kannski erfitt að túlka það sem sókn ef árangurinn yrði verri ár frá ári.

Það stendur líka í skýrslunni að heilbrigðisráðuneytið hafi ekki lagt formlegt mat á árangur aðgerðaáætlunar 2011–2020. Ég spyr: Er þetta kannski ekki hluti af vandanum? Hér er sífellt verið að blása til nefnda og samráðshópa og annað slíkt og það hljómar allt fallega, aðgerðaáætlanir geta hljómað fallega. En er grunnforsendan ekki sú að skoða hver árangur af aðgerðunum er áður en fólk tekur ákvörðun um hver næstu skref eigi að vera? Af því að hæstv. fjármálaráðherra sagði líka í morgun að þetta væri Alþingi að kenna, það væri Alþingi sem færi með fjárveitingavaldið, langar mig aftur að spyrja út í þingsályktunartillöguna um niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu. Hefur hv. þingmaður séð að Alþingi hafi einhverja möguleika til þess að koma með breytingartillögu og fá hana samþykkta í tengslum við fjármálaáætlunina? Telur hann einhverja möguleika á að stjórnarliðar muni koma með okkur í þann leiðangur?