Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[18:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég skildi ræðu hv. þingmanns þannig að þrátt fyrir allt fyndist henni staðan ekkert svo slæm vegna þess að búið væri að gera svo margt á vakt Vinstri grænna. En, frú forseti, það kemur skýrt fram í þessari skýrslu, sem við ræðum hér, að það skortir yfirsýn um alla stöðuna í þessum málaflokki og það skortir á greiningu á þjónustu og mannaflaþörf og upplýsingar um fjárþörf og raunkostnað í geðheilbrigðisþjónustu eru ekki á hreinu. Þegar við í velferðarnefnd erum að ræða stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030, sem liggur nú fyrir í velferðarnefnd, hefur það líka komið fram að stjórnvöld vita ekki hver þjónustuþörfin er en augljóst er að vandamálið er mikið og það fer vaxandi. Og eins og fram kemur í skýrslunni hefur fólki á örorku- eða endurhæfingarlífeyri vegna geðraskana fjölgað um 30% frá árinu 2010–2020 en fjölgun íbúa er 15%. Það er náttúrlega klár vísbending um að þarna sé eitthvað á ferðinni sem við þurfum að skoða. Það eru 8.300 einstaklingar sem eru óvinnufærir að hluta eða öllu leyti sökum geðraskana árið 2020. Við höfum rætt um það á hverju einasta ári sem ég hef verið á þingi, það fer nú að nálgast 13 ár, held ég, að stóru hóparnir sem þurfa að treysta á almannatryggingar, örorkubætur, eru þeir sem eiga við geðraskanir eða stoðkerfisvandamál að glíma.

Spurning mín til hv. þingmanns er: Höfum við ekki sofið á vaktinni og eru stjórnvöld í raun að gera nægilega mikið í þessum efnum?