Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[18:56]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Það skiptir auðvitað máli hvers konar gleraugu við setjum upp þegar við lesum þessa skýrslu, einfaldlega vegna þess að ef við ætlum að ná einhverjum árangri með kerfið og stefnuna á næstu árum verðum við að lesa hana rétt. Við verðum að meta þá þætti sem þarna er bent á og skoða þá þannig að hægt sé að gera gangskör í því að bjarga einhverju frekar en að tala um að þetta séu bara ákveðnir vankantar sem þurfi að bæta úr. Þetta er miklu djúpstæðara en svo. Ég náði ekki alveg að klára punktinn minn hér í fyrra andsvari en þegar við erum með flokka sem eru lengst til hægri og lengst til vinstri á hinu pólitíska litrófi, að takast á um stefnu og kerfi sem snýst um að veita heilbrigðisþjónustu, þá er uppskriftin úr því öllu einhvers staðar þarna mitt á milli og það gerist ekki nokkur skapaður hlutur. Það var líka það sem við sáum á síðasta kjörtímabili. (Forseti hringir.) Og miðað við það sem hv. þingmaður er að segja hér óttast ég að það verði nú leiðarstefið áfram þrátt fyrir að miðjuflokkurinn hafi skorið hina flokkana tvo niður úr snörunni með því að taka embætti heilbrigðisráðherra að sér.