Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:04]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Nú hef ég bara mínútu þannig að ég ætla bara að stikla á nokkrum atriðum. Mig langar að halda áfram á sömu braut vegna þess að ef fram fer sem horfir að þunginn, yfirflæðið, færist af spítalanum yfir á heilsugæsluna — það er verið að sinna fyrst þeim sem eru með erfiðustu málin, það er ósköp skiljanlegt — er fyrirsjáanleg afleiðing sú, miðað við viðvörunarraddir innan úr heilsugæslunni, frá sálfræðingum, að ekki verði hægt að sinna þessum atriðum. Þá eru tvö úrræði: Það er að fara og fá nauðsynlega sálfræðiþjónustu hjá sálfræðingum úti í bæ, sem eru samningslausir, eða að fólk endar á því að fá þjónustu hjá VIRK, sem veitir mjög góða þjónustu, en til þess að fá þá þjónustu þá þurfa menn að vera svo illa staddir að virkni þeirra í samfélaginu er orðið lítil. Eftir situr þá þetta. Og þá erum við komin að sálfræðingunum sem eru samningslausir, en í skýrslunni tekur heilbrigðisráðuneytið sig einhvern veginn út úr jöfnunni (Forseti hringir.) og segir: Það er bara rosalega miður að ekki sé búið að semja við sálfræðinga, mjög miður. (Forseti hringir.) Það er gerandi í því eða öllu heldur aðgerðalaus gerandi. Er hægt að vera það? (Forseti hringir.)

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, af því að við erum ekki alltaf sammála um aðkomu sérfræðinga að kerfinu okkar, þ.e. þeirra (Forseti hringir.) sem ekki starfa hjá ríkisstofnunum: Telur hann ekki mikilvægt að þessum samningum verði lokið og þessir sálfræðingar með sína (Forseti hringir.) þekkingu og reynslu og menntun geti komið af fullum þunga inn í þetta verkefni með okkur?