Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:05]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, þótt ég og fleiri í Vinstri grænum höfum lagt áherslu á opinbera heilbrigðiskerfi og höfum fagnað því mjög að sálfræðingar séu farnir að starfa innan heilbrigðisþjónustunnar, þá teljum við auðvitað mikilvægt að fólk hafi einnig aðgang að sálfræðiþjónustu annars staðar í samfélaginu. Það er bara staðreynd að það hafa ekki náðst samningar við sjálfstætt starfandi sálfræðinga og ég tel að það sé mikilvægt að vinna að því og ná þeim samningum. En eins og ég sagði áðan þá tel ég jafnframt að eins mikilvægir og sálfræðingar eru þá séu þeir ekki eina heilbrigðisstéttin í þessum málum sem er mikilvægt að fólk hafi greitt aðgengi að. Stundum gæti það verið iðjuþjálfi, sjúkraþjálfari — (Forseti hringir.) það eru ýmsar aðrar heilbrigðisstéttir sem skiptir máli að koma að (Forseti hringir.) því að þetta hangir allt saman, lýðheilsa og geðheilsa og forvarnir. Það þarf að taka á því með fjölbreyttum hætti.