Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Sú skýrsla sem við ræðum hér er þess eðlis að það er ekki hægt að kalla hana annað en áfellisdóm yfir því hvernig haldið hefur verið á þessum málaflokki. Við eðlilegar aðstæður í samfélaginu væri þetta fyrsta frétt í öllum fréttatímum, svo afdráttarlaus og áhyggjuvaldandi er niðurstaða þessarar skýrslu. Það er því sannarlega ljóst að það var tilefni til þess að fara fram á þessa skýrslugerð og rétt að þakka fyrrverandi hv. þingmanni og varaþingmanni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, fyrir að hafa barist fyrir því að þessi skýrsla yrði tekin saman því að það er sannarlega ekki vanþörf á.

Til að undirstrika hversu afdráttarlaus gagnrýnin er ætla ég að byrja á því að vekja athygli á nokkrum setningum úr neðanmálsgrein Ríkisendurskoðunar eftir vinnuna við þessa skýrslu því að það segir sína sögu um innihaldið og gefur kannski einhverjar vísbendingar um hvers vegna áfellisdómurinn er sá sem hann er. Ríkisendurskoðun segir:

„Erfiðlega gekk að fá umbeðin svör og gögn frá heilbrigðisráðuneyti sem og að útvega kostnaðartölur. Ríkisendurskoðun þurfti að bíða mánuðum saman eftir svörum við tilteknum spurningum þrátt fyrir ítrekanir. Einnig gekk erfiðlega að finna fundartíma. Ríkisendurskoðun telur jafnframt sum svör ráðuneytisins hafa verið óskýr og illa rökstudd þegar þau loks bárust.“

Þetta segir kannski sína sögu um það hvers vegna ástand þessara mála er eins og því er lýst í skýrslunni. Þetta er kerfisvandi, mjög víðtækur kerfisvandi. Það er auðvitað rétt sem hv. þm. Sigmar Guðmundsson sagði hér áðan að kerfi byggjast á fólki, en þá er það hlutverk stjórnvalda að tryggja að kerfið og fólkið innan þess starfi sem skyldi og að kerfið virki fyrir fólkið sem er að vinna innan kerfisins en virki líka til þess að þjónusta þá sem þurfa að reiða sig á það.

Lagt var upp með þrjú meginumfjöllunarefni í þessari skýrslubeiðni og númer tvö er um hverjir séu helstu veikleikar í stjórnsýslu málaflokksins. Vissulega er farið mjög ítarlega í það en ég hefði viljað sjá meira um þann mikla vanda sem að mínu mati felst í skorti á forvörnum, skorti á því að huga að því hvernig megi í tæka tíð draga úr því að vandinn, vandi kerfisins og auðvitað sérstaklega vandi skjólstæðinga þess, verði sá sem hann er greinilega orðinn samkvæmt þessari skýrslu.

Það er fjallað töluvert um biðtíma og ekki vanþörf á. Þegar litið er til annars stigs heilbrigðisþjónustu er biðtími eftir sálfræðiþjónustu fimm til fimm og hálfur mánuður, næstum því hálft ár. Þetta er í ágúst 2021. Þetta tengist líka mikilvægi forvarna vegna þess að ef menn þurfa að bíða í hálft ár eftir því að fá tíma þá hjálpar það ekki við að bæta ástandið á meðan. Því fyrr sem hægt er að bregðast við og grípa inn í, þeim mun líklegra er það til árangurs og augljóslega verða þjáningar þess sem bíður þeim mun minni. Það er líka tekið fram að geðheilsuteymi austur og vestur séu með um fimm mánaða bið. Þetta minnir á það sem hefur reyndar mikið verið rætt hér í þinginu og í samfélagsumræðunni almennt, stöðu geðheilbrigðismála á landsbyggðinni. En þrátt fyrir mikla umræðu þá hafa viðbrögðin ekki verið í samræmi við umfang vandans. Biðtími hjá Þroska- og hegðunarstöð er 12–24 mánuðir, það er eitt til tvö ár. Og ef litið er til þriðja stigs heilbrigðisþjónustu og meðalbiðtíma í mánuðum í júlí 2021 þá er þar t.d. ADHD-teymið, þar eru menn hættir að tala um mánuði og lýsa því að biðtíminn sé a.m.k. þrjú ár. Þrjú ár. Og hvað gerist á þeim tíma og hvað hefði verið hægt að koma í veg fyrir eða hversu mikið meira hefði verið hægt að hjálpa ef biðtíminn væri ekki þessi? DAM-teymi 18–20 mánaða biðtími, þunglyndis- og kvíðateymi 6–12 mánuðir, átröskunarteymi 18–20 mánaða biðtími. Sumt af þessu fólki getur hreinlega verið í lífshættu.

Þessi ríkisstjórn hefur státað sig af því að bera hag barna mjög fyrir brjósti án þess þó að hafa sýnt fram á neinn verulegan árangur á því sviði. Það hefur verið ráðist í einhverjar uppstokkanir á stofnunum og nöfnum þeirra jafnvel breytt og annað eftir því. En hver er árangurinn? Við sjáum í skýrslu Ríkisendurskoðunar að biðtími á BUGL, Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, hefur lengst úr 7,4 mánuðum árið 2017 í 8,7 mánuði árið 2020. Á Akureyri bíða 24 einstaklingar á biðlista og þeir sem eru að leita aðstoðar þar á biðlista eru í mörgum tilvikum fólk sem þarf bráðnauðsynlega á aðstoð að halda strax. En þar eru 24 á biðlista, 24 viðkvæmir einstaklingar. Ríkisendurskoðun bendir á að hjá SÁÁ í september 2021 hafi meðalbiðtími eftir meðferðarplássi á Vogi verið 40–50 dagar. Þetta er fólk sem er búið að taka stóra og erfiða ákvörðun, er búið að taka ákvörðun um að leita sér aðstoðar vegna fíknivanda, en eðli máls samkvæmt er ekkert víst að þetta fólk geti haldið út án aðstoðarinnar í 40–50 daga og hætta á að viðkomandi hætti við eða lendi í frekari ógöngum.

Svoleiðis að þetta er allt á sömu bókina lært. Það er verulegur vandi með biðlista og það virðist skorta annaðhvort vilja eða skipulag eða hvort tveggja til að taka á því. Jafnvel, eins og í tilviki SÁÁ, að stjórnvöld fari að kýta við þá sem veita þessa þjónustu, eins og reyndar ýmis önnur sjálfstæð samtök, svo ekki sé talað um einkarekstur á heilbrigðissviði. Þar hafa stjórnvöld a.m.k. allt síðasta kjörtímabil, og ég hef ekki orðið var við breytingu á þessu kjörtímabili, í raun fjargviðrast við þá sem eru sjálfstætt starfandi í þessari grein á heilbrigðissviðinu og viljað þjappa allri þjónustunni saman hjá ríkinu sem ræður ekki við álagið.

Ríkisendurskoðun bendir á nokkrar lykiltölur, m.a. að á árunum 2011–2020 hafi verið að meðaltali verið 44.260 komur á heilsugæslur á ári vegna geð- og atferlisraskana og komum hafi fjölgað um 91% á tímabilinu á landsvísu en þjónustuþegum um 81%. En á sama tíma fjölgaði fólki í fjarþjónustu geðþjónustu Landspítalans um 3.930% á þessu tímabili, 2011–2020. Auðvitað er eðlilegt að fjölgunin hafi verið mikil ef þessi úrræði hafa verið skammt á veg komin í upphafi tímabilsins en séu lengra komin núna. En það þarf að skoðast í samhengi við þá fjölgun í eftirspurn sem verður á sama tíma og þörf fyrir aðra þjónustu. Nokkrir hv. þingmenn hafa bent á það hér að skýrslan sýni fram á það að fjölgun fólks á örorku- eða endurhæfingarlífeyri vegna geðraskana hafi numið 30% á áratugnum 2010–2020 á sama tíma og íbúum landsins fjölgaði um 15%. Þá komum við aftur að forvörnum og ástæðunni, við þurfum að gera okkur betur grein fyrir ástæðunni fyrir því að fjölgunin hafi verið þetta mikil því að það er ekki hægt að finna bestu lausnirnar og takast á við vandann ef menn vita ekki hvers vegna vandinn er sá sem hann er og hefur vaxið svona mikið.

Allt kostar þetta auðvitað sitt. Beinn kostnaður vegna félags-, trygginga- og heilbrigðiskerfis vegna geðraskana árið 2020 nam 41,8 milljörðum kr. Áætlaður kostnaður við geðheilbrigðisþjónustu árið 2021 var 13,83 milljarðar. Þetta eru stórar upphæðir en fyrst og fremst áminning um mikilvægi forvarna og þess að grípa tímanlega inn í því að það er ódýrara, það er hagkvæmara en fyrst og fremst skiptir það auðvitað fólkið sem þarf á þjónustunni að halda öllu máli.

Mér sýnist á tímanum að ég nái ekki að fara yfir helstu tillögurnar nema að mjög takmörkuðu leyti en ég ætla að byrja á því að nefna fyrsta atriðið, fyrsta kaflann í tillögum til úrbóta sem snýr að mikilvægi þess að efla öflun upplýsinga og greiningu og utanumhald. Raunar má segja að allir þessir kaflar hvað úrbætur varðar, allir þessir kaflar um tillögur að úrbótum, snúi meira og minna að því sama, að kerfið virki ekki sem skyldi, og feli í sér mjög harða gagnrýni á kerfið og mikilvægi þess að laga það. En í fyrsta hlutanum um upplýsingar segir að það þurfi að efla söfnun upplýsinga og meðferð gagna og bæta aðgengi að þeim og eyða lagalegri óvissu, sem er orðin töluvert vandamál í þessum málaflokki, en reyndar víðar því að með kerfisvæðingu, eins og við höfum horft upp á hér á Íslandi undanfarin misseri og ár, þá aukast flækjurnar og lagalega óvissan. Afleiðingin af því verður sú, eins og reyndar er farið ítarlega yfir í skýrslunni, að það myndast grá svæði. Menn vita ekki fyrir víst hver ber ábyrgðina, hver á að taka á málinu og hvernig, hvernig kostnaður skiptist o.s.frv. Um leið er minnt á að mikill vandi sé aðsteðjandi varðandi mannaflaþörf og skortur á yfirsýn ráðuneytisins vegna kostnaðarins og vegna mannaflavandans og hvernig eigi að bregðast við því. Maður getur ekki annað en spurt sig: Hvers vegna hefur þetta ekki verið gert? Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við ræðum vandann í þessum málaflokki. En viðbrögðin, miðað við þennan áfellisdóm sem skýrslan er, hafa verið mjög lítil.

Áfram er haldið að benda á galla fyrirkomulagsins og þá í rauninni forystuleysi stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar, í þessum málaflokki og talað um mikilvægi þess að tryggja þurfi geðsjúkum samfellda þjónustu og auka samvinnu og samhæfingu milli stofnana. Á það hefur skort mjög verulega. Fyrir vikið lenda sjúklingar milli skips og bryggju því að samstarfið í kerfinu virkar ekki sem skyldi. Þar eru lagðar til nokkrar tillögur að úrbótum sem ég hef ekki tíma til að rekja en greinilega er full ástæða til þess að ráðast í þessar lagfæringar þannig að kerfið fari að virka sem heild og sjúklingar séu ekki sendir fram og til baka eða lendi í einhverju algjöru óvissuástandi á einhverjum gráum svæðum.

Frú forseti. Ég sé að ég kemst ekki langt með að fara yfir tillögurnar. Það er reyndar búið að gera það að nokkru í umræðunni til þessa. Ég ætla að biðja hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá því að það eru mörg atriði hérna sem ég þarf að draga sérstaklega fram í þessari sláandi skýrslu, þessum áfellisdómi yfir því hvernig haldið hefur verið á þessum málaflokki. Ég ætla á eftir að fara betur yfir tillögur til úrbóta en víkja einnig að umsögnum Geðhjálpar um þessa skýrslu því að þar eru mikilvægir viðbótarpunktar sem ég held að þurfi að ítreka hér. Þar er m.a. vikið að atriðum sem ég hef mjög verulegar áhyggjur af að skuli ekki hafa verið tekið á á undanförnum árum.