Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er þetta nátengt. Kjör fólks hafa líklega meira en flest annað um það að segja hversu vel gengur að ráða fólk til starfa eða að hvetja fólk til að fara í ákveðið nám. Fólk þarf að sjá fyrir sér að í þeirri vinnu sem það menntar sig til geti það haft viðunandi kjör. Þó er mikilvægt að hafa í huga að fleira kemur þarna til. Starfsaðstæður að öðru leyti skipta máli. Þetta var töluvert rætt, m.a. af sjálfum mér, í tengslum við umræðu um viðbyggingu við Landspítalann við Hringbraut. Maður varð mjög var við það meðal almenns starfsfólks á spítalanum að það vildi fara allt aðrar leiðir til að bæta starfsaðstöðuna. Það varð ekki úr því.

En annað sem tengist þessu mjög er auðvitað að hafa samkeppni, að fólk eigi kost á því að vinna á fleiri en einum stað, að það standi ekki frammi fyrir því að ef það ætlar sér að vinna við það sem það hefur menntað sig til sé bara einn staður í boði, bara einn vinnustaður mögulegur. Einn af kostunum við það að hafa fleiri sjálfstætt starfandi félög eða fyrirtæki á sviði heilbrigðismála er að það eykur samkeppnina sem þýðir að allir, þar með talið ríkið, þurfa að bæta starfsumhverfið og þurfa að bjóða upp á samkeppnishæf laun. Þess vegna verð ég eiginlega að lýsa furðu minni á því að Sjálfstæðisflokkurinn, hafandi verið í þessari ríkisstjórn í fimm ár og raunar í fjármálaráðuneytinu miklu lengur, eins og hv. þingmaður rakti í ræðu hér áðan, skuli ekki hafa gert neitt til þess að ýta undir kostina við þetta heldur þvert á móti látið Vinstrihreyfinguna – grænt framboð algjörlega ráða för.