Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður víkur hér að mjög stóru atriði í þessari skýrslu sem ég náði ekki að fara yfir í stuttri ræðu minni, en það er, eins og það er orðað, hvernig kerfið býr til innbyggða misskiptingu. Ég held reyndar að við þurfum að gera ráð fyrir að það sé ekki ætlunin, að kerfið sé ekki til þess hannað eða til þess ætlað að búa til misskiptingu, hvort sem er eftir búsetu, efnahag eða mismunandi geðsjúkdómum. En vegna þess að kerfið virkar ekki, vegna þess að kerfið er gallað, þá er það afleiðingin. Þetta er enn eitt dæmið um að ráðist er í lagasetningu eða stefnumótun af hálfu ríkisstjórnarinnar sem miðar fyrst og fremst að því að útskýra markmiðin, umbúðirnar, frekar en að líta á innihaldið og raunveruleg áhrif þess sem gert er.

Þegar menn sjá að raunveruleg áhrif þessa kerfisvanda eru þau sem þau eru þá þarf að breyta kerfinu, það þarf að laga kerfið. Nokkrir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa viðurkennt að þetta sé ekki bara í geðheilbrigðismálum heldur heilbrigðismálum almennt, kerfisvandi. En svo bara gerist ekkert í því að laga kerfið. Svo ég hætti á að taka svolítið öfgakennt dæmi í þessu samhengi, en það er bara til þess að setja hlutina í ákveðið samhengi, vil ég nefna að þau kerfi sem áttu að vera til þess fallin að ná hámarksjöfnuði, t.d. kerfi margra landa Austur-Evrópu fyrir fall múrsins — hverju skiluðu þau? Þau skiluðu misskiptingu. Afleiðingin, burt séð frá yfirlýstum markmiðum, varð algjör misskipting milli fólks.