Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í ræðu sinni fór hv. þingmaður ágætlega yfir biðlistana sem blasir við börnum í vanda. Nú er barnæskan bara ákveðinn árafjöldi og hún dugar varla til þess að fá lausn. Það þarf að bíða eftir greiningu og síðan þegar greiningin er komin þarf að bíða eftir þjónustunni og vandinn magnast. Ég hef miklar áhyggjur af þessari stöðu gagnvart börnum. En þegar talað er um geðheilbrigðismál og heilbrigðismál yfirleitt er talað mikið um að grípa þurfi snemma inn í, passa að vandinn vindi ekki upp á sig. Í 1. lið tillögu til þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030, sem hv. velferðarnefnd er núna með til vinnslu, stendur:

„Geðrækt, forvarnir og snemmbær úrræði verði grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga“ og að sérstakar áherslur fyrir árið 2030 verði m.a. að innleiða grundvallarþætti aðgerðaáætlunar um geðræktarstarf, forvarnir og stuðning við börn og ungmenni í leik-, grunn- og framhaldsskólum sem flokkast undir heilbrigðisþjónustu.

Þetta hljómar mjög vel í mínum huga. En ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi fundið bæði í fjárlögum fyrir árið í ár og í fjárhagsáætlun fyrir næstu fimm ár hvernig þessi aðgerðaáætlun á að vera fjármögnuð og hvort við eigum ekki bara nóg af stefnum og fallegum orðum, hvort það sé ekki komið að tímasettum og fjármögnuðum aðgerðum.