Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður lýsir þarna því sem ég tel vera meginvanda stjórnmálanna nú til dags. Þetta snýst allt um umbúðir og yfirlýsingar frekar en innihald og efndir. Hv. þingmaður er náttúrlega fyrrverandi fjármálaráðherra og hefur lengi starfað í fjárlaganefnd og verið ötull við að benda á mikilvægi þess að fyrirheitin séu fjármögnuð og auðvitað helst að það sé einhver aðgerðaáætlun um hvernig skuli hrinda hlutum í framkvæmd. Þetta hefur algerlega skort, m.a. á sviði barnamálanna sem þessi ríkisstjórn, eða a.m.k. hluti hennar, hefur mikið reynt að skreyta sig með. En svo fer maður að skoða, eins og hv. þingmaður nefndi hérna áðan, hvað er raunverulega að gerast. Hvaða fjármagn fer í þetta? Hvaða raunverulegu breytingar eiga sér stað? Þá er ekki mikið að finna því að að miklu leyti hefur þetta fyrst og fremst bara snúist um yfirlýsingarnar, heiti á ráðuneyti, eins og það breyti einhverju, búa til ímynd. Og svo eru ítrekað kynntar áætlanir um þennan málaflokk ekki síst, en svo er því ekkert fylgt eftir. Það er ekkert klárað. Það er eins og markmiðið hafi fyrst og fremst verið að kynna áformin frekar en að framkvæma þau. Og við sjáum það m.a. í þessari skýrslu sem við erum að ræða hér að þessi mikla barnamálaríkisstjórn hefur á sínu tímabili setið yfir ástandi á barna- og unglingageðdeild Landspítalans þar sem biðlistar voru að vísu orðnir langir en hafa lengst mjög umtalsvert á þeim árum sem þessi ríkisstjórn hefur starfað frá 2017, úr 7,4 mánuðum þá í 8,7 mánuði árið 2020. Og ég óttast að biðlistarnir geti verið orðnir enn lengri, enda er þetta allt á sömu bókina lært, þeir hafa lengst og lengst.