Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Þingmenn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og aðrir talsmenn þingflokka við þessa skýrsluumræðu hafa farið vel og vandlega yfir helstu efnisatriði skýrslunnar og sannarlega er af nægu að taka. Þeir hafa farið vel yfir stöðu mála almennt og væntingar og tillögur til úrbóta. Eins og hefur komið skýrt fram kemur staðan sjálf sem þessi skýrsla lýsir ekkert endilega á óvart því að við höfum einfaldlega heyrt neyðarköll notenda úr kerfinu sem og þeirra sem þar starfa. Við vitum að það er víða pottur brotinn en það er ákveðið áfall í raun og veru að sjá þessa samantekt svart á hvítu þar sem er einfaldlega sagt að á sama tíma og eftirspurn og þörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu hefur aukist stöðugt á milli ára, þá sé geta stjórnvalda til að tryggja nauðsynlega þjónustu undir væntingum, einfaldlega, og biðin of löng. Það er ákveðið áfall að sjá staðfestingu á því hversu sláandi sú staðreynd er að stjórnvöld skortir yfirsýn yfir stöðuna. Við erum aftur og aftur að fá þessa einkunn þegar verið er að taka ákveðna málaflokka þar sem eldar brenna, ekki aðeins bjóðum við ekki úrræði heldur skortir yfirsýnina. Afleiðingin af því er auðvitað sú að aðgerðir verða ómarkvissar. Oft og tíðum erum við jafnvel að horfa upp á það að við setjum undir lekann á einum stað með því að stinga gat annars staðar. Þannig að þetta er tilfærsla í kerfinu frekar en raunverulegar úrbætur. Það er bara afleiðing af þeirri stöðu og þeirri staðreynd, sem hér er hnykkt á, að það skortir yfirsýn. Vonandi verður það lærdómurinn.

Í ljósi þess að það er búið að fara mjög vel yfir efnisatriðin þá langar mig að beina sjónum sérstaklega að því sem fellur undir hina svokölluðu fyrsta stigs þjónustu. Í geðheilbrigðismálum, líkt og annarri heilbrigðisþjónustu, er búið að festa niður með lögum stig þjónustunnar og þessi fyrsta stigs þjónusta er þjónusta við fólk með vægar geðraskanir, kvíða, þunglyndi, áfallastreituröskun, jafnvel átröskun. Þetta er þjónusta sem er fyrst og fremst veitt af heilsugæslunni, af sálfræðingum, og þar hefur verið bætt í, en nú eru blikur á lofti, og líka af geðheilsuteymum innan heilsugæslunnar sem bjóða þverfaglega þjónustu, þau hafa verið að bjóða annars stigs geðheilbrigðisþjónustu en líka gripið inn í þessa. Síðan er það þriðja stigið sem er sjúkrahúsþjónustan.

Það er vissulega svo að Ríkisendurskoðun minnist ekki beinlínis á VIRK í skýrslunni. Eins og þekkt er er þar veitt þjónusta VIRK starfsendurhæfingarsjóðs fyrir einstaklinga sem búa við skerta starfsgetu vegna heilsubrests og stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði. En það er ekki minnst á VIRK í skýrslunni og það er eiginlega útskýrt af hverju í þessum orðum, með leyfi forseta: „Samspil heilbrigðis- og félagsþjónustu er töluvert en ákveðið var að afmarka efni skýrslunnar að mestu við fyrri þáttinn.“ Það er staðreynd að VIRK tengist félagsmálaráðuneytinu en ekki heilbrigðisráðuneytinu og þetta er starfstengt, þetta er náttúrlega ekki þjónusta heldur sjóður og sem slíkur ber hann hitann og þungann af þjónustu vegna almennra geðraskana, þessara svokallaðra fyrsta stigs geðraskana. Svo tengist fjarvera VIRK sjóðsins og þjónustunnar þar í þessari skýrslu kannski því að skýrslan fjallar fyrst og fremst um þungu málin en leggur kannski minni áherslu á þessar almennu geðraskanir. Eins og ég nefndi hér í einhverjum andsvörum fyrr þá er alveg skiljanlegt að þar sem vandinn er alvarlegastur og stærstur og þar sem ríður mest á að koma með bjargir, þar liggi fókusinn. En gallinn er sá að ef ekki er hugað að fyrsta stigs þjónustunni þá erum við að búa til fleiri erfið dæmi inn í nálæga framtíð. Það fara stórar fjárhæðir í gegnum VIRK til heilbrigðisþjónustunnar og stærsti þjónustuþátturinn þar er einmitt sálfræðiþjónusta sem þörf er á vegna almennra og vægra geðraskana, þ.e. kvíða, vægs eða meðalþungs þunglyndis og svo áfallastreituröskunar. Þetta eru mál sem vega býsna þungt hjá VIRK og hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaganna.

Síðan hefur á síðustu þremur áratugum vægi geðraskana sem fyrstu ástæðu þess að fólk er á endurhæfingarlífeyri aukist svo að því er stundum haldið fram að geðraskanir séu hin nýja örorka. Það er því full ástæða til að leggja áherslu á þennan málaflokk líka og full ástæða til að vara við því að nú sé enn og aftur farið í sérstakt átaksverkefni sem beinist bara að tilteknum hluta geðheilbrigðisþjónustunnar vegna þess að til viðbótar við þann mikla kostnað og álag á heilbrigðiskerfi sem þessi þróun veldur, að fólk fari á endurhæfingarlífeyri vegna þess að það fær ekki úrbót við vægum geðröskunum, þá er alveg óboðlegt að það sé sístækkandi hópur fólks í þessari stöðu með skert lífsgæði af því að það fær ekki nauðsynlega aðstoð á fyrri stigum. Þess vegna var það mikið fagnaðarefni þegar fyrir mjög stuttu síðan var farið að fjölga sálfræðingum innan heilsugæslunnar til að taka nákvæmlega á þessum hópi, þ.e. geðheilsuteymin tóku annars stigs þjónustuna og sálfræðingarnir tóku svo við þessu fólki og ekki síður varð það fagnaðarefni að þar var ráðinn sérstakur fagstjóri sálfræðiþjónustu sem átti að tryggja að gagnreynd meðferð væri nýtt og hún væri eins á milli heilsugæslustöðva. Núna eru hins vegar blikur á lofti vegna þess að það er mikið álag, mikil ásókn í þessa þjónustu, langir biðlistar, spítalinn þarf aðstoð við erfiðu verkefni hans og geðheilsuteymin eru að taka við þeim innan heilsugæslunnar að einhverju leyti. Þannig er þróunin. Ég endurtek: Það er skiljanlegt þegar við getum ekki við núverandi aðstæður veitt öllum þjónustu að fókusinn sé á þyngstu málunum. En þetta er bara svo röng sýn. Það er bara svo rangt að gera þetta svona, að ýta þeim annað sem þurfa fyrsta stigs þjónustu þar sem myndi duga, ef ég má nota það orð, gagnrýnd meðferð sálfræðinga. Hún er tímafrek, ég veit það ekki, tekur 5, 10, 15 skipti sem er heilmikið í kerfi sem er aðþrengt, en leysir mál fólks þannig að þetta er ákveðið áhyggjuefni.

Ég vísa hér í að Sálfræðingafélag Íslands sendi í lok mars frá sér yfirlýsingu þar sem það lýsti þungum áhyggjum vegna þessara breytinga á sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar þar sem væri verið að draga aftur úr áherslum á gagnreynda sálfræðilega meðferð og samhæfða þjónustu á milli heilsugæslustöðva. Við getum líka horft á það svo að ef fólk sem kemur og þarf þessa fyrsta stigs þjónustu fær hana ekki, nema einhver örviðtöl, og er síðan vísað á sálfræðinga á stofum utan hins ríkisrekna kerfi og raunverulega utan opinbera kerfisins á meðan ekki er búið að semja við þá, er það býsna þungur biti fyrir mjög marga. Í öðru lagi er úrræðið að hætta að vinna og skrá sig í VIRK til að fá þar þjónustu. Þetta er ekkert sérlega fýsileg framtíðarsýn og ég hefði viljað að þetta fengi meira vægi. Við erum þegar að upplifa að fólk er að detta úr vinnu og úr almennri virkni í samfélaginu vegna almennra geðraskana sem það fær ekki aðstoð við og þetta verður þyngra. En við erum á einhverri annarri leið. Það verður áhugavert að sjá hvort viðbrögð stjórnvalda við þessari skýrslu verði þau að raunverulega ná utan um heildstæða mynd þar sem farið verður í að veita hverju af þessum þremur stigum geðheilbrigðisþjónustunnar þau úrræði sem þau þurfa en ekki farið í hliðranir til að svara háværustu köllunum á hverjum stað.

Niðurstaðan er eiginlega sú að þessa skýrslu þurfum við að nota til að komast upp úr þeim hjólförum að sinna ekki því verkefni að vinna langtímasýn sem byggir á gögnum og fjármagni sem þarf til (Forseti hringir.) og hætta átaksverkefnum sem eiga að lækka hrópin þar sem þau eru hæst hverju sinni. (Forseti hringir.) Þau geta alveg skilað ákveðnum skammtímaárangri en staðan til lengri tíma verður jafnvel verri en hún er nú ef við förum að temja okkur þessi vinnubrögð. (Forseti hringir.) Það finnst mér vera lærdómur númer eitt af þessari skýrslu.