Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir sitt innlegg í umræðuna. Hún lauk ræðu sinni svona um það bil á þeim orðum að ekki væri þörf á fleiri átaksverkefnum og ég tek heils hugar undir það. Þörfin núna er fyrir langtímastefnumótun, langtímasýn, fjármagnaðar aðgerðir og samstöðu um það sem þarf að gera, pólitíska samstöðu. En þingmaðurinn nefndi VIRK starfsendurhæfingu í sínu máli sem er mjög merkileg og mikilvæg starfsemi í samfélaginu. VIRK var stofnað, ef ég man rétt, árið 2008 eða 2009, þegar aðilar vinnumarkaðarins höfðu í raun gefist upp á því að bíða eftir því að hið opinbera tæki á starfsendurhæfingu af einhverju viti. Því voru það ASÍ, BSRB, KÍ og BHM, SA ásamt fjármálaráðuneyti, Reykjavíkurborg og launanefnd sveitarfélaga, sem voru stofnaðilar VIRK starfsendurhæfingarsjóðs sem starfar sem sjálfseignarstofnun og stendur að mjög mikilvægri starfsemi hér á landi. En málið er að VIRK er og á að vera starfsendurhæfingarúrræði. Auðvitað tekur það á móti fólki sem glímir við ýmis veikindi. Oftar en ekki er það vegna aðstæðna á vinnumarkaði, sem geta auðvitað verið margvíslegar, en líka vegna annarra veikinda eða áfalla eða annars. Það sem mig langaði kannski bara að benda á í því samhengi er að að sjálfsögðu geta margir veitt þessa þjónustu en starfsemi eins og sú sem VIRK (Forseti hringir.) veitir kemur kannski ekki í staðinn fyrir það sem hið opinbera þarf að veita líka.