Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:53]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur kærlega fyrir andsvarið. Það eru líklega fáir hér í þessum sal eða á þingi nú sem þekkja málefni VIRK jafn vel og hv. þingmaður gerir í ljósi fyrri starfa. Þetta er alveg hárrétt. Ég tek alveg hjartanlega undir það varðandi hlutverk VIRK. Það sem ég var frekar að benda á, í ljósi þess að tölur sýna hversu stór hluti starfsendurhæfing vegna geðrænna vandamála er að verða af þeirri aðstoð og þeirri endurhæfingu sem á sér stað innan VIRK, var tengingin við það að einstaklingar eiga erfitt með að fá aðstoð á fyrstu stigum innan heilbrigðiskerfisins. Það er sú tenging. Ef við horfum upp á það sem mér sýnist t.d. að Sálfræðingafélagið og aðrir aðilar, líka sálfræðideildir háskólanna, hafi verið að benda á, þ.e. neikvæðar afleiðing af því ef það er aftur farið að draga úr þessari samstilltu meðferð fyrsta stigs þjónustu innan heilsugæslunnar af því að þar taka önnur fyrirferðarmeiri verkefni pláss, þá er raunverulega verið að beina fólki í tvenns konar úrræði önnur ef það ætlar á annað borð að leita í þau: Það er að fá sálfræðiþjónustu hjá sálfræðingum sem eru án samnings eða leita til VIRK. Það var eiginlega punkturinn.