Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:02]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir andsvarið. Þetta eru sláandi tölur í þessum svörum um hlutfall heilbrigðisstarfsfólks af þessum nýskráningum, vont að sjá þetta svona svart á hvítu þó að tilfinningin hafi auðvitað verið þessi. Innst inni vitum við alveg hvert álagið er á þessu starfsfólki og ég átti fund með hópi starfsfólks þvert að af spítalanum, og var að ræða við þau um stöðuna og stemninguna og það skein í gegn að það voru djúpstæð vonbrigði yfir því, eftir ómanneskjulegt álag þessa Covid-tíma, að það skyldi ekki hafa neitt létt til. Þau eru bara að horfa fram á sama kapphlaupið aftur og slagsmál um að kría út einhverja sumarleyfisdaga án þess að vera trufluð o.s.frv.

Hvatar, já, auðvitað. Í fyrsta lagi þarf náttúrlega að borga fólki samkeppnisfær laun miðað við aðrar stéttir. Þetta er fagfólk sem hefur lagt mikið á sig að komast þangað sem það er. Þar getum við dustað rykið af hugmyndum sem ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um, um að kjör kvennastétta séu lagfærð. Aftur og aftur komum við þessu, aðstöðu kvenna í þessu samfélagi okkar, hvernig við búum að þeim. En auðvitað eru hvatar líka vinnuaðstæður og almennt utanumhald og við erum komin í ákveðnar ógöngur með þetta mál. Það vill enginn fara í kostnaðarsamt og langt og erfitt nám til þess eins að vera settur í aðstæður þar sem þú getur ekki einu sinni sinnt skyldu þinni eins og þú vilt. Fólk er bara miður sín, bíður eftir því að einhver mistök verði. Þetta er orðin býsna erfið staða. Ég held að það sé alveg ljóst að það þarf að fara í einhverja markvissa vinnu til að leysa þetta og fá fulltrúa þessara stétta með í það að horfa á þetta til lengri tíma.(Forseti hringir.)

En ég ætla að fá að segja aðeins í lokin líka, af því að þessi skýrsla er uppspretta upphrópana, ef svo má segja, að það sló mig (Forseti hringir.) þegar ég áttaði mig á því t.d. með geðhjúkrunarfræðingana að það nám hefur bara ekki verið í boði í ákveðinn tíma.