Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:28]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir andsvarið. Alveg hárrétt. Við höfum margir þingmenn hér í dag komið inn á þetta með sálfræðiþjónustuna og nákvæmlega þennan punkt, að með því að grípa inn í þar getum við sparað eitthvað á hinum endanum. Ég myndi síðan líka vilja nefna eitt og það er hvernig umfangið í geðheilbrigðisþjónustunni hefur vaxið alveg gríðarlega en fjármagnið hins vegar ekki í sama hlutfalli. Þetta er auðvitað vandi sem við þekkjum ekki bara með geðheilbrigðismálin sem slík heldur annars staðar úr ríkisrekstrinum. En þetta er svolítið sláandi vegna þess að Geðhjálp og fleiri aðilar hafa verið að kalla eftir því að þetta verði kortlagt með almennilegum hætti og ég veit að Geðhjálp hélt að framlög til geðheilbrigðismála væru 12% en þessi skýrsla leiðir það í ljós að þau eru 4,6%. Umfang geðheilbrigðisvandans innan kerfisins er 30% en fjármagnið er 4,6%. Skekkjan þarna á milli er auðvitað þekkt en að hún sé svona mikil er eitthvað sem meira að segja kom Geðhjálp á óvart. Mig langar að spyrja hv. þingmann um það. Hvernig afgreiðum við svona risavaxin vandamál? Við erum með þessa skýrslu sem lýsir því í smáatriðum hvernig margt er ekki í lagi og þarf að laga og á sama tíma erum við með þetta misvægi á milli umfangs geðheilbrigðisþjónustunnar og síðan fjármagnsins sem fer í þetta. Hvernig leysum við þetta? Er hægt að leysa þetta bara með einhverri uppstokkun á kerfinu eða þurfum við að bæta inn í kerfið þess vegna milljarða tugum til að jafna þarna á milli?