Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðismál sem er hér til umræðu. Þegar ég rýni í þessa skýrslu, sem er vel unnin, kemur þar margt mjög mikilvægt fram og margt sem betur má fara og sem betur þarf að fara í þessum málaflokki. Því miður höfum við ekki staðið okkur sem skyldi og ég vona svo sannarlega að við tökum þessa skýrslu alvarlega, eins og hefur verið nefnt hér, það er full þörf á því, og að við ráðumst nú þegar í þær umbætur sem koma fram í skýrslunni og þær tillögur sem Ríkisendurskoðun hefur til úrbóta í þessum mikilvæga málaflokki.

Frú forseti. Í þessari ræðu minni hér langar mig svolítið að horfa til geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga, sem er gríðarlega mikilvæg. Börn eiga rétt á að njóta bestu mögulegu heilsuverndar sem völ er á og þarf því að tryggja þeim og fjölskyldum þeirra greiðan aðgang að þjónustu fagfólks á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu. Um þetta hefur m.a. umboðsmaður Alþingis ályktað. Erlendar rannsóknir sýna að allt að 20% barna og unglinga fást við vanlíðan eða geðröskun eins og kvíða eða þunglyndi. Líklegt er að fjöldi þeirra sem glímir við þennan vanda sé meiri en rannsóknir sýna því að ekki segja öll börn frá því þegar þeim líður illa. Það þarf að auka þekkingu barna og foreldra á ýmiss konar geðröskun svo þau geti leitað sér aðstoðar ef þau verða vör við einkenni. Það er mjög mikilvægt. Sýnt hefur verið fram á mikilvægi forvarna og svokallaðrar snemmtækrar íhlutunar til að efla geðheilbrigði barna.

Skilgreining á forvörn er sú að hún sé íhlutun sem getur komið í veg fyrir eitthvert tiltekið ástand, sem sagt dregið úr því eða komið í veg fyrir að ástandið versni. Það er mjög mikilvægt í þessum málaflokki. Þess vegna eru þessir biðlistar sem voru nefndir hér, ég held það hafi verið hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem fór vel yfir það í sinni ræðu hversu skelfilega við stöndum okkur í þessum biðlistamálum — ég ætla bara að segja alveg eins og er að það er gríðarlega mikilvægt að við förum í átak og eyðum þessum biðlistum. Það þarf að leggja áherslu á það að finna þau börn eða unglinga sem finna fyrir vanlíðan eða geðrænum vanda og segja ekki frá því og leita sér ekki aðstoðar. Það þarf að hafa gott aðgengi að úrræðum og þjónustu fyrir börn með vanlíðan eða geðröskun. Forvarnir eru líklega stærsti þátturinn í því. Þá þarf að fara að skoða það að veita forvarnir eins og skilgreint er hér að framan eða horfa meiri meira á valdar og sértækar forvarnir með áherslu á þessa snemmtæku íhlutun, að grípa inn í stöðuna eða ástandið áður en það versnar og getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Hingað til hafa t.d. hjúkrunarfræðingar í heilsugæslunni horft meira á almennar forvarnir. Þetta kemur fram í ágætri grein eftir Kristínu Ingu Grímsdóttir geðhjúkrunarfræðing sem ég hvet þingmenn til að kynna sér, ákaflega fróðleg grein þar eftir ágæta konu sem þekkir mjög vel þennan málaflokk. Með því að sinna börnum og fjölskyldum þeirra með forvörnum og auka og samræma þjónustu við börn með vanlíðan og geðrænan vanda eru meiri líkur á því að gripið verði inn í hjá barni sem er með vanlíðan. Við þurfum að standa okkur betur í þessum efnum, frú forseti, vegna þess að þetta er ákaflega mikilvægt þegar við horfum upp á börn og ungmenni þurfa að kljást við þessi vandamál jafnvel stóran hluta af ævinni eða ævilangt.

Ef við förum aðeins aftur inn á biðina eftir þjónustu á Íslandi fyrir börn með geðrænan vanda þá er þessi bið allt of löng. Þetta er alveg óásættanlegt og eins og kom fram í ræðu sem ég nefndi hér áðan þá getur biðtíminn verið allt að þrjú ár. Slíkt er algjörlega óásættanlegt. Ég vil hvetja heilbrigðisráðherra til að taka þetta mál föstum tökum og gefa ekkert eftir í þeim efnum. Það þarf djörfung af hálfu framkvæmdarvaldsins og hugrekki til að taka á þessu og ég hvet, eins og ég segi, heilbrigðisráðherra eindregið til þess.

Það má vera nokkuð ljóst að það vantar fleiri úrræði og aukna þjónustu á Íslandi sem vinnur að því að efla geðheilbrigði barna og unglinga. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem hér er til umfjöllunar, segir að eftirspurn og þörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu aukist ár frá ári innan heilbrigðiskerfisins, ár frá ári. Samt erum við á þessum stað sem við erum núna með þessa löngu biðlista og þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar sem við viðurkennum að er í raun og veru áfellisdómur og við verðum að bregðast við þeim ábendingum sem þar koma fram.

Geta stjórnvalda til að tryggja nauðsynlega þjónustu er undir væntingum og bið eftir þjónustu er almennt of löng, eins og ég sagði, og ekki í samræmi við markmið stjórnvalda. Það er skortur á yfirsýn í þessum málaflokki og nauðsynlegar upplýsingar liggja ekki fyrir eða eru óaðgengilegar. Þetta er býsna alvarlegt og við verðum að taka þetta alvarlega. Þegar kemur að farsælu skipulagi geðheilbrigðisþjónustunnar skiptir smæð landsins að sjálfsögðu máli. Hér hjá okkur eru boðleiðir stuttar og það ætti að vera auðvelt að reyna að koma á skýrara skipulagi og verklagi innan og á milli stofnana. Ég held að við ættum að hafa það í huga í þeirri vinnu sem við verðum að fara í að þetta á ekkert að vera neitt stórkostlegt mál vegna þess að við erum jú fámenn þjóð og eigum gott starfsfólk þó að það vanti fleiri. Það eru allir af vilja gerðir sem eru í heilbrigðisgeiranum, heilbrigðisþjónustunni, að leggja sitt af mörkum. Þess vegna ætti það að vera mjög svo auðsótt að bregðast við ákveðnum athugasemdum í þeirri skýrslu. Ég held að við verðum að horfa til þess að hér er skýrsla sem er mjög vel unnin og hefur mjög margar og góðar tillögur. Ég fagna því framtaki sem felst í því að fá þessa skýrslu og hún er lögð hér fram. Mig minnir að það hafi verið hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir sem var frumkvöðull að því að þessi skýrsla er nú komin hér til þingsins og ég fagna því sérstaklega.

Ég ætla líka aðeins að koma inn á samþykkt Alþingis í geðheilbrigðismálum 2016–2020. — Ég sé það, frú forseti, að tími minn er að renna út þannig að ég ætla að fara nánar yfir það — eða ef hægt er að setja mig aftur á mælendaskrá yrði ég er þakklátur fyrir það. En í samþykktinni kom fram að aukin þörf væri á forvörnum til að efla geðheilbrigði barna og unglinga, efla þjónustu og samráð í heilsugæslunni og stytta biðlista á göngudeild BUGL til að efla geðheilbrigði barna og unglinga. Þetta er sem sagt samþykkt í aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum Alþingis árin 2016–2020 og ég ætla þá að víkja að því í minni næstu ræðu.