Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðuna og byrja á að taka heils hugar undir áhyggjur hans af því sem hann kom inn á, það eru þessir biðlistar og þetta ástand með geðheilbrigði barna sem hlýtur að öskra á okkur út úr þessari skýrslu. Þar kemur t.d. fram að biðtími hjá ADHD-teymi Landspítalans er 36 mánuðir, DAM-teymi Landspítalans rúmir 18 mánuðir, þunglyndis- og kvíðateymið 12 mánuðir, átröskunarteymið rúmir 18 mánuðir og hjá Þroska- og hegðunarstöð eru það 24 mánuðir, tvö ár. Við erum að tala um ótrúlegan fjölda barna og það hlýtur að hringja líka viðvörunarbjöllum að þessi listi, þótt hann sé settur svona upp, er ekki réttur. Ég veit að það eru til tveir listar og ég hef meira að segja heyrt um þriðja listann. Þú ferð á einn biðlista til að komast á annan biðlista og þú getur lent á þriðja biðlistanum, fer eftir því í hvaða flokki þú lendir og hvernig ástandið er í kerfinu.

Nú er hv. þingmaður í stjórn. Hvernig sér hann fyrir sér að leysa málið? Það er einhvern veginn allt byggt á einhverju kviksyndi. Það er ekki verið að taka á vandanum, það hefur ekki verið gert, það er verið að búa til eitthvert kerfi sem á að virka í framtíðinni en meðan það er ekki tekið á biðlistavandanum þá virkar þetta framtíðarkerfi ekki. Og hvernig sér hann fyrir sér að það verði hægt að leysa mönnunarvandann í þessu? Þar er líka allt í óefni. Ég sé ekki hvernig þessi ríkisstjórn ætlar að fara að leysa það á næstu árum eða jafnvel áratug. Hvaða áhrif heldur hv. þingmaður að þetta muni hafa börnin sem eru inni í þessu kerfi?