Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar ágætu hugleiðingar. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er ákaflega mikilvægt að við hlúum að börnum og ungmennum. Mér finnst persónulega að það ætti að vera fyrsta skrefið í því að bæta stöðu þessa málaflokks, að byrja á þeim hópi. Ég hef sagt það hér í ræðu og fleiri að biðlistarnir eru algerlega óásættanlegir og ef eitthvað er þá hafa þeir bara lengst.

Ég sagði líka áðan í ræðu að það væri áhugavert að skoða skýrslu frá árinu 2017 þar sem landlæknisembættið stóð fyrir samráðsfundi um geðheilbrigðismál barna og unglinga. Þar kemur svolítið athyglisvert fram, að það sem ógni mjög skilvirkni heilbrigðisþjónustunnar sé að ekki sé litið á fjármál ríkisins sem eina heild heldur geti hagræðing falist í því fyrir stofnanir að draga úr þjónustu þótt álag vaxi þá á öðrum og jafnvel kostnaðarsamari sviðum. Þetta er mjög góður punktur og þess vegna hef ég talað fyrir því að við lesum þessa skýrslu samhliða skýrslu Ríkisendurskoðunar, því að þetta er einn af þessum mikilvægum punktum sem væri hægt að grípa strax inn í af hálfu framkvæmdarvaldsins og myndi koma sér mjög til góða. Það er líka annað í þessu að það ógnar góðu skipulagi að ýmis úrræði og þjónusta sé háð styrkjum og tilviljunarkenndri fjármögnun, t.d. út frá áhugasviði ráðherra, frekar en í samræmi við þessa heildarstefnumótun og bestu þekkingu.

Ég get svo sem er ekki svarað þessu öðruvísi en svo að ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að það þarf þetta net, þ.e. að grípa utan um fjölskyldurnar. (Forseti hringir.) Þegar kannski einn fjölskyldumeðlimur eða eitt barn á við vandamál að stríða þá þarf að grípa alla fjölskylduna. Það er partur af því að leysa þessi mál.