Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að við þurfum að horfa á þetta heildstætt. Það er held ég það sem má líka lesa úr þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar. Hann er algerlega vanmetinn, og það kom einnig fram í ræðu hér fyrr í kvöld, kostnaðurinn við það að hafa þessa löngu biðlista, hafa þennan mönnunarvanda, geta ekki sinnt þessari þjónustu nægilega vel. Þetta hefur allt saman í för með sér kostnað fyrir þjóðfélagið. Við höfum séð það og ég held að það séu til upplýsingar um það að þeir sem koma nýir inn á örorku, ungt fólk í mjög mörgum tilfellum, á við einhvers konar andlega erfiðleika að stríða. Þess vegna er mjög mikilvægt að grípa snemma inn í þessi vandamál, því þau geta síðan orðið að enn þá stærri vandamálum með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið o.s.frv. Ég tek því heils hugar undir þetta hjá hv. þingmanni. (Forseti hringir.) Það er víða pottur brotinn í þessum málaflokki, því miður. Skýrslan segir okkur það og við verðum að bregðast við.