Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég er algjörlega þeirrar skoðunar að ef við tökum þetta föstum tökum, vinnum á þessum biðlistum, eyðum þeim og grípum inn í aðstæður sem allra fyrst þá sé það hagur fyrir allt samfélagið. Það er alveg klárt mál í mínum huga og ég held að það sé búið að sýna fram á þetta bæði í ræðu og riti af þeim sem best til þekkja í þessum málaflokki. Það kemur fram í skýrslu landlæknis frá 2017 að ef við sinnum þessum einstaklingum strax frá upphafi vel, unga fólkinu sem hefur teikn um það að glíma við andlega erfiðleika, grípum strax inn í þau mál, þá skiptir það verulegu máli. Að þurfa að bíða í þrjú ár er algerlega óásættanlegt. Það getur kostað það að viðkomandi einstaklingur jafnvel endi á örorku og nái ekki að stunda vinnu o.s.frv. Þetta kostar allt samfélagið og umfram allt þá verður að reyna að sinna þessum einstaklingum þannig að þeir geti lifað eðlilegu lífi.