Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:22]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ræðuna. Mig langaði að ræða ákveðið efni sem kemur fram í skýrslunni sem varðar mismunun. Það er talað um að það sé mismunur á nokkrum sviðum og nefndur efnahagslegur mismunur, tegund geðvanda, væntanlega spila ýmsir þættir þar inn, og síðan er búseta nefnd. Ég veit að hv. þingmaður er búsett á Austfjörðum og þekkir þar til. Það er um langan veg að fara yfir stórt landsvæði og dýrt að ferðast á milli og ég þekki að í gegnum tíðina þá hefur verið afskaplega erfitt ástand, ekki síst er varðar sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu fyrir ungt fólk á Austfjörðum. Þetta hefur kannski að einhverju leyti batnað með samhæfðum vinnubrögðum Heilbrigðisstofnunar Austurlands en er engu að síður enn þá langt frá því sem er í boði á stærri þéttbýlisstöðum á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel á Akureyri og annars staðar.

Mig langaði að heyra aðeins í hv. þingmanni hvað henni finnst til ráða og hvort hún sé ekki sammála mér um að þetta sé kannski hlutur sem þurfi sérstaklega að taka á. Þó að það verði auðvitað aldrei hægt að manna og sinna svona sértækum úrræðum jafn vel um allt land, hvort það sé þá ekki nauðsyn a.m.k. að veita þessu sérstakan gaum og gera það besta sem hægt er og bæta töluvert í frá því sem nú er.