Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:27]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem hv. þingmaður kemur inn á, með hvar ábyrgðin liggur, er líka fjallað um í skýrslunni og talað um þetta gráa svæði sem ekki er ljóst hvort ríki, sveitarfélög, einstakar stofnanir eða aðrir eigi að sinna. Ég spyr: Er þá ekki augljósast að hæstv. heilbrigðisráðherra, samflokksmaður þingmannsins, beri ábyrgð á því og þurfi að greiða úr því að skýra það hvar ábyrgðin liggur á hverjum tíma?

Mig langar líka að spyrja af því að hv. þingmaður talaði um að það vantaði skipulagssöfnun, upplýsingasöfnun gagna og annað slíkt og hún vísaði í geðheilbrigðisstefnu sem væri í smíðum. Það er sagt í skýrslunni að heilbrigðisráðherra hafi ekki lagt mat á aðgerðaáætlun 2011–2020. Er hv. þingmaður trúuð á að stefnan sem við erum að setja fram í tímann verði nógu góð ef það er ekki einu sinni lagt mat á hvað er búið að gera?