Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:46]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir afbragðsræðu og segi það hér enn eina ferðina að það er alveg ótrúlega verðmætt að geta rætt þessa skýrslu núna þegar fyrsta vetri á þessu kjörtímabili er að ljúka. Ég árétta það sem ég hef áður sagt að það er mjög brýnt að við öll tökum þessa skýrslu svolítið vel til okkar og það verði gerðar einhverjar úrbætur. Maður eiginlega veit ekki alveg hvar væri best að byrja því að þetta er auðvitað langur verkefnalisti. Það er ekki hægt að segja annað, skýrslan leiðir það í ljós. En ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði svolítið um húsnæðið. Það er nefnt í skýrslunni að húsnæði geðþjónustu Landspítala hafi mikið verið til umfjöllunar í fjölmiðlum en það sé þannig að mati fulltrúa Landspítala að þetta húsnæði sé hamlandi og það sé ógn við starfsemina. Við þurfum svolítið að staldra við svona lykilpunkta hér og þar í skýrslunni sem stundum láta ekki mikið yfir sér. Hvað þýðir það að við séum með fólk í húsnæði sem er ógn við starfsemina? Húsnæðið er gamalt, það er heilsuspillandi og úrelt. Og mikil þörf sé á umfangsmiklu, kostnaðarsömu viðhaldi til skamms tíma en til langs tíma litið þurfi nýtt húsnæði við hæfi. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður kom inn á þetta og nefndi að flokkurinn hennar, Samfylkingin, hefði látið þessi mál sig varða svolítið. Svo lengi sem ég hef fylgst með samfélagsmálum hefur verið rætt um húsnæðið í þessu sambandi, að það hæfi starfseminni ekki á neinn hátt. Þá veltir maður því fyrir sér eftir allar þessar skýrslur, allan þennan tíma, fyrirspurnir og allt það sem hefur verið beint til stjórnvalda: Er hv. þingmaður bjartsýn á að það gerist eitthvað í þessum málum? Eins og var verið að nefna hér er ekki gert ráð fyrir þessu í þessum nýju, stóru, miklu framkvæmdum. Hvað þá?