Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:48]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Auðvitað langar mann bara að tala um fólk einhvern veginn en við þurfum stundum líka að tala um húsnæði. Það er magnað að sjá það sem stendur á blaðsíðu 65 í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem er aðeins farið yfir tímalínuna, áform um úrbætur. Það er búið að fjalla lengi um hver staðan er en þar segir:

„Í úttekt embættis landlæknis á gæðum og öryggi þjónustu á geðsviði Landspítala árið 2014 kom fram eftirfarandi mat landlæknis: „Ástand húsnæðis geðsviðsins er víða ábótavant og stenst ekki ætíð kröfur nútímans.“

Þetta var 2014. Næsta sem gerist í þessu máli er 2020:

„Á Alþingi var lögð fram tillaga til þingsályktunar um uppbyggingu geðsjúkrahúss á höfuðborgarsvæðinu og kallað eftir að heilbrigðisráðherra hæfi vinnu við að tryggja bætta aðstöðu fyrir geðsvið Landspítala til frambúðar. Náði sú tillaga ekki fram að ganga.“

Þetta var tillaga okkar í Samfylkingunni. Árið 2021:

„Heilbrigðisráðherra tilkynnti að tryggt yrði að geðþjónusta Landspítala fengi viðunandi húsnæði um það leyti sem nýr meðferðarkjarni sjúkrahússins rís.“

Þetta er tilkynning frá þáverandi heilbrigðisráðherra nokkrum dögum fyrir kosningar síðasta haust. Það hefur ekkert spurst til þessa. Það vill svo skemmtilega til að Ríkisendurskoðun er einmitt að fjalla um aðra skýrslu þessa dagana sem inniheldur loforð ráðherra í aðdraganda kosninga og hvað það kostaði, af því að það er auðvitað ekkert grín þegar neyðarástand ríkir í húsnæðismálum varðandi geðþjónustu að ráðherrar leyfi sér að koma fram með svona yfirlýsingar rétt fyrir kosningar og svo bara er ekki neitt. Húsnæði bæði hér og á Akureyri er fullkomlega óboðlegt. Það er það eina sem við vitum.