Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:50]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanninum kærlega fyrir svarið og tek undir það að þetta er auðvitað algerlega óviðunandi ástand og er bara eitt dæmið af mörgum í þessari skýrslu þar sem er verið að benda á hluti sem hafa verið til umfjöllunar í kerfinu jafnvel í áratugi, aftur og aftur, og lítið þokast í rétta átt.

En mig langaði líka aðeins að spyrja hv. þingmanninn, af því að það var aðeins minnst á umsögn Geðhjálpar um þessa skýrslu, alveg afbragðsinnlegg inn í þessa umræðu. Ég hef svolítið staldrað við þeirra útleggingu á því úr skýrslunni þar sem verið er að tala um framlög til heilbrigðismála og hlutdeild, hvernig fjármagnið rennur til geðheilbrigðismála í samhengi við heildarumfangið inni í heilbrigðiskerfinu sjálfu. Þá er verið að vísa til þess að umfang geðheilbrigðismála er 30% af öllu kerfinu en fjármagnið er ekki nema 4,6%. Það er þannig að mér skilst að Geðhjálp hafi haldið að þetta hlutfall væri talsvert hærra, vel hærra, 12%, en er síðan aðeins um 4,6%. Það er reyndar tekið fram að það geti verið einhver skekkja í þessu. En þetta a.m.k. segir okkur einhverja sögu um hvað vantar mikið upp á. Ég hef spurt fleiri þingmenn að þessu af því að þetta setur okkur í þær stellingar að við þurfum að hugsa um jafnvægið í þessu, umfang geðheilbrigðisþjónustunnar eykst og eykst en fjármagnið fylgir ekki með. Hvernig ætlum við að brúa þetta bil? Hvað getum við gert til að koma þessu þannig að það sé eitthvert jafnvægi á milli umfangsins innan kerfisins og þess hve mikið fjármagn fer þarna inn í? Þetta hlýtur að kalla á einhverja talsvert mikla uppstokkun og viðhorfsbreytingu þegar við skoðum kerfið í heild.